Innlent

Tveir karlar grunaðir um að hafa orðið konu á sex­­tugs­aldri að bana

Bjarki Sigurðsson skrifar
Lögregla segir að konunni hafi verið ráðinn bani í Laugardalnum.
Lögregla segir að konunni hafi verið ráðinn bani í Laugardalnum. Vísir/Vilhelm

Tveir karlar á fimmtugsaldri eru í haldi lögreglu vegna gruns um manndráp í Laugardalnum í Reykjavík. Hin látna er kona á sextugsaldri.

Mbl.is greindi fyrst frá. Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglu, staðfesti að grunur væri um manndráp í hverfi 105 þar sem aðili hefði fundist látinn í gærmorgun.

Í framhaldinu sendi lögreglan tilkynningu þess efnis að kona á sextugsaldri hefði fundist látin í bifreið við hús í Laugardal í gærmorgun. Tveir menn voru í kjölfar þess handteknir í þágu rannsóknarinnar og úrskurðaðir í gæsluvarðhald til fimmtudagsins 13. október.

Rannsókn málsins er enn á frumstigi en í tilkynningunni segir að hún beinist meðal annars að því hvort mennirnir hafi átt þátt í andláti konunnar. 

Lögregla segir að ekki sé hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.

Þetta er í annað skiptið á innan við viku hér á landi sem grunur leikur á um manndráp. Karlmaður á fimmtugsaldri lést af völdum stungusára á Ólafsfirði aðfaranótt síðastliðins mánudags. Sex vikur eru síðan kona var myrt á Blönduósi. Árásarmaðurinn lést sömuleiðis á vettvangi.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×