Umfjöllun: Gjorche Petrov - KA/Þór 20-20 | Allt í járnum eftir fyrri leikinn

Árni Gísli Magnússon skrifar
KA/Þór og norður-makedónsku meistararnir Gjorche Petrov gerðu jafntefli í kvöld.
KA/Þór og norður-makedónsku meistararnir Gjorche Petrov gerðu jafntefli í kvöld. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

KA/Þór mætti Makedónsku meisturunum í Gjorche Petrov í fyrri leik liðanna í Evrópubikar kvenna í KA-heimilinu í kvöld. Leiknum lauk með dramatísku jafntefli, 20-20.

Liðin áttu erfitt með að finna netmöskvana í upphafi en gestirnir frá Makedóníu skoruðu fyrsta markið þegar komið var á fimmtu mínútu leiksins. KA/Þór skoraði næstu fjögur mörkin og voru því 4-1 yfir eftir 8 mínútur.

Liðið skiptust á að skora þangað til í stöðunni 7-6 fyrir KA/Þór þegar 20 mínútur voru liðnar af leiknum. Ekkert gekk upp í sóknarleiknum og refsuðu gestirnir iðulega með marki og þær skoruðu næstu 5 mörk og komust því 11-7 yfir sem voru hálfleikstölur.

Heimakonur skoruðu því ekki mark síðustu 10 mínútur hálfleiksins og munar um minna. Matea Lonac var í stuði í markinu og var komin með 8 varða bolta í hálfeiknum. Leikurinn var mjög gæðalítill í fyrri hálfleik en bæði lið voru að tapa gríðarlega mikið af boltum og í raun erfitt að halda tölu á hversu margir þeir voru.

Gestirnir héldu heimakonum áfram þremur til fjórum mörkum frá sér í upphafi síðari hálfleiks. Matea Lonac hélt uppteknum hætti og hélt heimakonum í raun inni í leiknum og varði m.a. bæði vítin sem Gjorche Petrov fékk ásamt ótal færum.

Gestirnir fóru að þreytast þegar leið á og KA/Þór minnkaði muninn í 17-15 þegar 9 mínútur lifðu leiks. Munurinn fór svo niður í eitt mark en heimakonur virtust einfaldlega ekki geta jafnað en það tókst loksins þegar 30 sekúndur voru eftir þegar hin 16 ára Lydía Gunnþórsdóttir jafnaði í 20-20 af vítalínunni.

Þjálfari Gjorche Petrov tók þá leikhlé og leikmaður þeirra ákvað að fara í skot þegar 20 sekúndur voru eftir sem fór af varnarmanni og aftur fyrir. Þær tóku hornkastið en misstu boltann og KA/Þór gat brunað í sókn með 10 sekúndur eftir og stolið sigrinum. Sendingin fram var hins vegar ótímabær og beint í hendurnar á andstæðingum en KA/Þór átti meira segja leikhlé inni sem Andri Snær náði einfaldlega ekki að taka.

Anastasija Nikolovska fór inn úr hægra horninu þegar ein sekúnda var eftir og setti boltann í netið. Dómararnir ræddu sín á milli og komust að því að leiktíminn hafi verið runninn út og jafntefli niðurstaðan.

Liðið mætast öðru sinni í KA-heimilinu á morgun í úrslitaleik um hvort liðið kemst áfram í þriðju umferð keppninnar.

Af hverju varð jafntefli?

KA/Þór byrjaði betur en Gjorche Petrov var svo betri aðilinn allt þangað til í lokin þegar heimakonur sýndu frábæran karakter í að koma til baka og jafna þegar 30 sekúndur voru eftir. Þetta hefði síðan geta dottið báðu megin í lokin en liðin eru í staðinn hnífjöfn fyrir seinni leikinn á morgun.

Hverjar stóðu upp úr?

Matea Lonac var besti maður vallarins með 18 varða bolta sem gerir 47% markvörslu. Hún hélt KA/Þór einfaldlega inni í leiknum í síðari hálfleik.

Hildur Lilja Jónsdóttir var markahæst með 5 mörk og þar á eftir koma þær Unnur Ómarsdóttir og Lydía Gunnþórsdóttir með 4 mörk. Þess má geta að Lydía er einungis 16 ára gömul og skoraði úr gríðarlega mikilvægum vítum.

Hjá Gjorche Petrov var Anastasija Nikolovska markahæst með 6 mörk og þar á eftir kemur Angela Jankulovska með 5 mörk úr heilum 14 skotum.

Hvað gekk illa?

Ég hef aldrei séð eins marga tapaða bolta í einum leik og verða bæði lið að gjöra svo vel að laga þetta.

Hvað gerist næst?

Liðin mætast öðru sinni strax annað kvöld í KA-heimilinu kl. 19:30 í hreinum úrslitaleik um hvort liðið fer áfram.

Andri: Enduðum leikinn eins og meistarar

Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs.Vísir/Hulda Margrét

Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þór, var ánægður með liðsheildina hjá liði sínu eftir jafntefli í fyrri leik liðsins við Gjorche Petrov í Evrópubikar kvenna.

„Þetta var eiginlega stórfurðulegur leikur en það sem ég er gríðarlega ánægður með er það að eftir að hafa grafið okkur í gríðarlega leiðinlega holu þá náum við að vinna okkur aftur inn í leikinn og sýndum mjög góða liðsheild að koma til baka með áhlaup og hefðum með smá heppni geta stolið þessu í lokin, það hefði verið sætt.”

Bæði lið töpuðu gríðarlega mörgum boltum í fyrri hálfleik. Hvað var að valda því?

„Ég held að bara bæði lið hafi verið pínu yfirspennt. Bæði lið með frekar unga leikmenn og það var auglóst að trommurnar í húsinu voru kannski að þenga taugarnar. Það voru skrautlegir tapaðir boltar og við hefðum geta komið okkur í góða stöðu með því að nýta okkur alla þessa hraðaupphlaups sénsa sem við fengum en við köstuðum boltanum trekk í trekk í einhverja þvælu og það var dýrt. Við skoruðum eitt mark á 14 mínútum eða eitthvað í fyrri hálfleik þannig að það er ótrúlegt að sá kafli hafi ekki drepið okkur. Það sem ég er ánægður með er að þetta var alvöru karakter og við enduðum leikinn eins og meistarar.”

KA/Þór fékk boltann þegar 10 sekúndur voru eftir og fengu tækifæri til að vinna leikinn. Andri átti leikhlé inni en leikmaður KA/Þór kastaði boltanum beint í hendurnar á andstæðingi áður en Andri náði að taka leikhlé og Gjorche Petrov náði næstum að landa sigrinum í kjölfarið.

„Við vorum í yfirtölu og vorum í hörku séns að geta keyrt seinni bylgju og fengið dauðafæri í yfirtölu en því miður var léleg sending og við fórum með það en það er bara svoleiðis og nú er bara hálfleikur og það er hellingur eftir.”

„Nú þarf að fá sér eina Matur og Mörk loku og Gatorade og teygja vel og vera klár á morgun,” sagði Andri léttur að lokum en liðin mætast öðru sinni annað kvöld í KA-heimilinu í úrslitaleik um hvort liðið fer áfram í næstu umferð.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira