Herforingjaráð Suður-Kóreu segir að af herþotunum tólf hafi átta verið orrustuþotur og fjórar verið sprengjuflugvélar. Talið er að flugmenn Norður-Kóreu hafi verið að æfa árás á skotmörk í Suður-Kóreu, samkvæmt frétt Yonhap fréttaveitunnar.
Norður-Kóreumenn hafa skotið fjölmörgum eldflaugum á síðustu dögum. Á þriðjudaginn skutu þeir langdrægri eldflug sem getur borið kjarnorkuvopn yfir Japan. Þá sendu Bandaríkjamenn flugmóðurskip á svæðið.

Eftir það var tveimur skammdrægum eldflaugum skotið frá Norður-Kóreu og héldu Bandaríkjamenn, Japanar og Suður-Kóreumenn saman heræfingu í kjölfar þess. Eldflaugum hefur einnig verið skotið á loft frá Suður-Kóreu.
Sjá einnig: Suður-Kóreumenn svöruðu fyrir sig en báðust síðan afsökunar
Eldflaugatilraunir Norður-Kóreu eru í trássi við samþykktir Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Það er kjarnorkuvopnaþróun einræðisríkisins einnig. Norður-Kórea hefur verið beitt mjög svo ströngum refsiaðgerðum og viðskiptaþvingunum vegna þessa.
Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, lýsti því nýverið yfir að hann myndi aldrei láta kjarnorkuvopn sín af hendi.
AP fréttaveitan hefur eftir sérfræðingum að Kim vilji að öllum líkindum að Norður-Kórea verði formlega viðurkennt sem kjarnorkuveldi og að viðskiptaþvingunum verði í kjölfarið aflétt. Bandaríkjamenn og aðrir bandamenn þeirra hafi þó ekki gefið í skyn að það muni nokkurn tímann gerast.