Umfjöllun og viðtöl: Valur - KA 26-18 | Öruggt í auðgleymdum leik Ingvi Þór Sæmundsson skrifar 29. september 2022 20:20 Ellefu Valsmenn skoruðu í leiknum í kvöld. VÍSIR/HULDA MARGRÉT Valur vann sinn fjórða sigur í jafn mörgum leikjum í Olís-deild karla þegar liðið lagði KA örugglega að velli, 26-18, í fyrstu viðureign 4. umferðar í kvöld. Valsmenn hafa margoft spilað betur á sóknarhelmingnum og voru mjög lengi í gang en eftir góðan kafla undir lok fyrri hálfleiks var sigurinn aldrei í hættu. Varnarleikur Vals var framúrskarandi og Björgvin Páll Gústavsson í miklum ham í markinu. Hann varði nítján skot, eða 51 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig. Ellefu leikmenn Vals skoruðu í leiknum, enginn meira en fjögur mörk. KA spilaði fína vörn og Nicholas Satchwell átti góða kafla í markinu (fimmtán skot, 37 prósent) en sóknin var afleit. KA-menn unnu aldrei stöðuna maður gegn manni og Valsmenn negldu þá í hvert skipti sem þeir nálguðust vörn þeirra. Ráðaleysið var mikið og það var sama upp á hverju þjálfarateymi KA bryddaði; ekkert virkaði gegn Valsvörninni. KA byrjaði leikinn vel og komst í 1-3 þegar Skarphéðinn Ívar Einarsson skoraði með góðu skoti á 6. mínútu. Þetta reyndist síðasta mark KA-manna í þrettán mínútur. Sem betur fer fyrir gestina var sókn heimamanna lítið skárri auk þess sem KA gerði einstaklega vel í að hægja á Val. Valsmenn skoruðu samt fjögur mörk í röð og komust í 5-3. Allan Norðberg skoraði svo loksins fyrir KA, eftir að Björgvin hafði varið þrisvar frá honum úr dauðafærum á skömmum tíma. KA-menn jöfnuðu í 7-7 en Valsmenn skoruðu síðustu fjögur mörk fyrri hálfleiks og leiddu 11-7 að honum loknum. Þessi kafli var dýr fyrir KA, eftir að hafa þraukað fram að því þrátt fyrir þrettán markalausar mínútur og frábæra frammistöðu Björgvins sem varði tólf skot í fyrri hálfleik (63 prósent). Eftir þennan góða endasprett á fyrri hálfleik var Valur kominn í bílstjórasætið og fór ekkert úr því. KA-menn héngu í þeim framan af seinni hálfleik en baráttan var alltaf hálf vonlaus. Og eftir fjögur mörk Valsmanna í röð sem komu stöðunni í 20-12 var leik lokið. Á síðasta stundarfjórðungi leiksins leystist hann upp og liðin klúðruðu sóknum og dauðafærum til skiptis. Nicholas varði allt hvað af tók en nánast undantekningarlaust endaði boltinn aftur í höndum Valsmanna. Á endanum munaði átta mörkum á liðunum, 26-18, í frekar rislitlum og auðgleymdum leik. En það segir sitt um styrk Vals að þeir hafi unnið átta marka sigur og manni finnist þeir eiga helling inni. Snorri Steinn: Þeir komust hvorki lönd né strönd Strákarnir hans Snorra Steins Guðjónssonar eru með fullt hús stiga á toppi Olís-deildarinnar.vísir/diego Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, var mjög ánægður með vörn liðsins og markvörslu Björgvins Páls Gústavssonar en fannst sóknin ekki í sama gæðaflokki. „Vörn og markvarsla voru frábær allan leikinn. Það var ekki slen yfir okkur þar. KA gerði bara vel og hægði á þessu,“ sagði Snorri eftir leik. „Við vorum ekki nógu beittir í sókninni né hraðaupphlaupum. Við gerðum of mörg mistök og klikkuðum á dauðafærum þannig ég er ekki ánægður með þann hluta leiksins hjá okkur.“ Varnarleikur Vals var pottþéttur í kvöld og KA komst lítið áleiðis. „Vörnin var frábær og Bjöggi frábær í markinu. Ákefðin og baráttan var frábær og þeir komust hvorki lönd né strönd. Við slökuðum heldur aldrei á. Ég rúllaði aðeins á liðinu og breytti um en það hafði ekki mikil áhrif,“ sagði Snorri. „Ég hefði samt viljað sjá okkur beittari fram á við.“ Þjálfaranum fannst sínir menn ekki útfæra hraðaupphlaupin nógu vel í leiknum. „Það vantaði ekki fleiri hraðaupphlaup; við þurftum bara að gera þau betur. Við vorum með yfir tíu tapaða bolta og klikkuðum á yfir tíu dauðafærum og það er ekki nógu gott. Við þurfum að laga það, skerpa á því og hver einn og einasti aðeins að laga þann part. Í jöfnum leik gengur það ekki upp,“ sagði Snorri að endingu. Jónatan: Þeir fóru 3-4 sinnum í andlitið á okkur Jónatan Magnússon reyndi hvað hann gat að finna lausnir á vörn Vals en ekkert gekk.vísir/vilhelm Jónatan Magnússon, þjálfari KA, var svekktur með lokamínútur fyrri hálfleiks í leiknum í kvöld. Honum fannst Valsmenn fá að ganga full hart fram í vörninni. „Við fórum illa að ráði okkar síðustu mínúturnar í fyrri hálfleik, að vera ekki nær þeim en fjögur mörk,“ sagði Jónatan í leikslok. „Vörnin var mjög góð en þetta var erfitt í sókninni. Þeir eru harðir. Ég þarf að skoða þetta aftur en þeir fara 3-4 sinnum í andlitið á okkur. Ég þekki kannski ekki reglurnar, hvenær það er eitthvað meira en tvær mínútur, en þetta stakk í augun. Við ætluðum að mæta þeim af hörku, vitandi að þeir eru grimmir. Mér fannst halla mjög mikið á okkur, ef ég á að vera alveg hreinskilinn.“ KA skoraði ekki nema átján mörk í leiknum og skotnýtingin var aðeins 43 prósent. „Sóknin var ekki góð og við gerðum okkur þetta erfitt. En það vantaði samt ekkert upp á baráttuna og vörnin og markvarslan var góð. Ég hefði viljað vera nær þeim,“ sagði Jónatan. Valur skoraði síðustu fjögur mörk fyrri hálfleiks og breytti stöðunni úr 7-7 í 11-7. Jónatan fannst það svekkjandi eftir að hafa þraukað þrátt fyrir að hafa ekki skorað í þrettán mínútur. „Sóknin var þetta erfitt allan tímann. Við prófuðum sjö á sex og hefðum kannski átt að gera meira af því. En við hefðum viljað vera með betri stöðu í hálfleik og koma betur inn í seinni hálfleikinn til að gera þetta að leik,“ sagði Jónatan að lokum. Olís-deild karla Valur KA Handbolti
Valur vann sinn fjórða sigur í jafn mörgum leikjum í Olís-deild karla þegar liðið lagði KA örugglega að velli, 26-18, í fyrstu viðureign 4. umferðar í kvöld. Valsmenn hafa margoft spilað betur á sóknarhelmingnum og voru mjög lengi í gang en eftir góðan kafla undir lok fyrri hálfleiks var sigurinn aldrei í hættu. Varnarleikur Vals var framúrskarandi og Björgvin Páll Gústavsson í miklum ham í markinu. Hann varði nítján skot, eða 51 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig. Ellefu leikmenn Vals skoruðu í leiknum, enginn meira en fjögur mörk. KA spilaði fína vörn og Nicholas Satchwell átti góða kafla í markinu (fimmtán skot, 37 prósent) en sóknin var afleit. KA-menn unnu aldrei stöðuna maður gegn manni og Valsmenn negldu þá í hvert skipti sem þeir nálguðust vörn þeirra. Ráðaleysið var mikið og það var sama upp á hverju þjálfarateymi KA bryddaði; ekkert virkaði gegn Valsvörninni. KA byrjaði leikinn vel og komst í 1-3 þegar Skarphéðinn Ívar Einarsson skoraði með góðu skoti á 6. mínútu. Þetta reyndist síðasta mark KA-manna í þrettán mínútur. Sem betur fer fyrir gestina var sókn heimamanna lítið skárri auk þess sem KA gerði einstaklega vel í að hægja á Val. Valsmenn skoruðu samt fjögur mörk í röð og komust í 5-3. Allan Norðberg skoraði svo loksins fyrir KA, eftir að Björgvin hafði varið þrisvar frá honum úr dauðafærum á skömmum tíma. KA-menn jöfnuðu í 7-7 en Valsmenn skoruðu síðustu fjögur mörk fyrri hálfleiks og leiddu 11-7 að honum loknum. Þessi kafli var dýr fyrir KA, eftir að hafa þraukað fram að því þrátt fyrir þrettán markalausar mínútur og frábæra frammistöðu Björgvins sem varði tólf skot í fyrri hálfleik (63 prósent). Eftir þennan góða endasprett á fyrri hálfleik var Valur kominn í bílstjórasætið og fór ekkert úr því. KA-menn héngu í þeim framan af seinni hálfleik en baráttan var alltaf hálf vonlaus. Og eftir fjögur mörk Valsmanna í röð sem komu stöðunni í 20-12 var leik lokið. Á síðasta stundarfjórðungi leiksins leystist hann upp og liðin klúðruðu sóknum og dauðafærum til skiptis. Nicholas varði allt hvað af tók en nánast undantekningarlaust endaði boltinn aftur í höndum Valsmanna. Á endanum munaði átta mörkum á liðunum, 26-18, í frekar rislitlum og auðgleymdum leik. En það segir sitt um styrk Vals að þeir hafi unnið átta marka sigur og manni finnist þeir eiga helling inni. Snorri Steinn: Þeir komust hvorki lönd né strönd Strákarnir hans Snorra Steins Guðjónssonar eru með fullt hús stiga á toppi Olís-deildarinnar.vísir/diego Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, var mjög ánægður með vörn liðsins og markvörslu Björgvins Páls Gústavssonar en fannst sóknin ekki í sama gæðaflokki. „Vörn og markvarsla voru frábær allan leikinn. Það var ekki slen yfir okkur þar. KA gerði bara vel og hægði á þessu,“ sagði Snorri eftir leik. „Við vorum ekki nógu beittir í sókninni né hraðaupphlaupum. Við gerðum of mörg mistök og klikkuðum á dauðafærum þannig ég er ekki ánægður með þann hluta leiksins hjá okkur.“ Varnarleikur Vals var pottþéttur í kvöld og KA komst lítið áleiðis. „Vörnin var frábær og Bjöggi frábær í markinu. Ákefðin og baráttan var frábær og þeir komust hvorki lönd né strönd. Við slökuðum heldur aldrei á. Ég rúllaði aðeins á liðinu og breytti um en það hafði ekki mikil áhrif,“ sagði Snorri. „Ég hefði samt viljað sjá okkur beittari fram á við.“ Þjálfaranum fannst sínir menn ekki útfæra hraðaupphlaupin nógu vel í leiknum. „Það vantaði ekki fleiri hraðaupphlaup; við þurftum bara að gera þau betur. Við vorum með yfir tíu tapaða bolta og klikkuðum á yfir tíu dauðafærum og það er ekki nógu gott. Við þurfum að laga það, skerpa á því og hver einn og einasti aðeins að laga þann part. Í jöfnum leik gengur það ekki upp,“ sagði Snorri að endingu. Jónatan: Þeir fóru 3-4 sinnum í andlitið á okkur Jónatan Magnússon reyndi hvað hann gat að finna lausnir á vörn Vals en ekkert gekk.vísir/vilhelm Jónatan Magnússon, þjálfari KA, var svekktur með lokamínútur fyrri hálfleiks í leiknum í kvöld. Honum fannst Valsmenn fá að ganga full hart fram í vörninni. „Við fórum illa að ráði okkar síðustu mínúturnar í fyrri hálfleik, að vera ekki nær þeim en fjögur mörk,“ sagði Jónatan í leikslok. „Vörnin var mjög góð en þetta var erfitt í sókninni. Þeir eru harðir. Ég þarf að skoða þetta aftur en þeir fara 3-4 sinnum í andlitið á okkur. Ég þekki kannski ekki reglurnar, hvenær það er eitthvað meira en tvær mínútur, en þetta stakk í augun. Við ætluðum að mæta þeim af hörku, vitandi að þeir eru grimmir. Mér fannst halla mjög mikið á okkur, ef ég á að vera alveg hreinskilinn.“ KA skoraði ekki nema átján mörk í leiknum og skotnýtingin var aðeins 43 prósent. „Sóknin var ekki góð og við gerðum okkur þetta erfitt. En það vantaði samt ekkert upp á baráttuna og vörnin og markvarslan var góð. Ég hefði viljað vera nær þeim,“ sagði Jónatan. Valur skoraði síðustu fjögur mörk fyrri hálfleiks og breytti stöðunni úr 7-7 í 11-7. Jónatan fannst það svekkjandi eftir að hafa þraukað þrátt fyrir að hafa ekki skorað í þrettán mínútur. „Sóknin var þetta erfitt allan tímann. Við prófuðum sjö á sex og hefðum kannski átt að gera meira af því. En við hefðum viljað vera með betri stöðu í hálfleik og koma betur inn í seinni hálfleikinn til að gera þetta að leik,“ sagði Jónatan að lokum.
Leik lokið: Ísland - Ítalía 71-95 | Ítalir ekki í vandræðum þrátt fyrir fjarveru lykilmanna Körfubolti
Leik lokið: Ísland - Ítalía 71-95 | Ítalir ekki í vandræðum þrátt fyrir fjarveru lykilmanna Körfubolti