Umfjöllun og viðtöl: Njarð­vík - Grinda­vík 77-61 | Meistararnir komnir á blað

Siggeir F. Ævarsson skrifar
Aliyah A'taeya Collier var stigahæst í liði Njarðvíkur í kvöld.
Aliyah A'taeya Collier var stigahæst í liði Njarðvíkur í kvöld. VÍSIR/VILHELM

Aðra umferðina í röð var boðið upp á Suðurnesjaslag í Subway-deild kvenna, en í kvöld mættust Njarðvík og Grindavík í Ljónagryfjunni. Íslandsmeistarar Njarðvíkur töpuðu í opnunarleiknum gegn grönnum sínum Í Keflavík og því eflaust staðráðnar í að sækja sigur í kvöld. Grindvíkingar aftur á móti opnuðu mótið á góðum sigri gegn Fjölni og vildu án vafa byggja ofan á þann árangur.

Heimakonur mættu töluvert grimmari til leiks en gestirnir og settust fljótlega í bílstjórasætið. Raquel Lanierio, sem tók við leikstjórnandastöðunni af Vilborgu Jónsdóttur sem er haldin vestur um haf, stýrði sóknarleik þeirra af hörku og sprengdi vörn Grindavíkur ítrekað með hraða sínum. Varnarleikur Grindvíkinga var einfaldlega ekki nógu góður í upphafi og Njarðvíkingar fengu mörg opin þriggjastiga skot, settu alls 7 í 16 tilraunum í fyrri hálfleik.

Í upphafi annars leikhluta lenti Aliyah Collier í villuvandræðum þegar hún fékk sína þriðju villu og riðlaðist sóknarleikur heimakvenna eitthvað við það. Grindvík náði ágætis áhlaupi og náðu að minnka muninn í 6 stig, en Njarðvík átti síðustu körfu hálfleiksins sem var þristur og leiddu í hálfleik, 41-32.

Í hálfleik var það Lavinina Da Silva sem var stigahæst Njarðvíkinga með 13 stig, en Bríet kom næst með 10. Raquel Laniero var þá komin með 6 stoðsendingar, en fleiri urðu þær ekki í kvöld.

Hjá gestunum var Dani stigahæst með 11 stig og Elma komin með 9. Hún átti flotta innkomu hér í sínum fyrsta leik á Íslandi. Hún mun eflaust reynast Grindvíkingum drjúg eftir því sem hún kynnist liðsfélögum sínum betur og lærir inn á sitt hlutverk í liðinu.

Ef Grindvíkingar eygðu einhverja von um að minnka muninn frekar og jafnvel fara með sigur af hólmi í þessum leik þá slökktu Njarðvíkingar allar þær vonir í þriðja leikhluta. Lengi vel voru Grindvíkingar aðeins með 3 stig í honum, en hann endaði 25-9, Njarðvíkingum í vil. Munurinn því 25 stig fyrir lokahleikhlutann sem var þá í raun hálfgert formsatriði fyrir þær grænklæddu.

Grindvíkingar voru þó með smá lífsmarki í lokaleikhlutanum og náðu að minnka muninn í 12 stig. Það verður að gefa þeim nokkur stig fyrir viðleitni og að hafa ekki lagt árar í bát eftir mótlætið í þriðja leikhluta. Þær voru þó einfaldlega búnar að grafa sér alltof djúpa holu og Njarðvíkursigur svo til óumflýjanleg straðreynd. Lokatölur 77-61 og Njarðvíkingar komnar með sína fyrstu punktana á töfluna.

Af hverju vann Njarðvík?

Sóknarleikur Njarðvíkinga var til fyrirmyndar í kvöld. Boltinn flæddi vel og margir leikmenn tilbúnir að taka af skarið sem gerði Grindvíkingum erfitt fyrir að skipuleggja sig og ákveða hvenær og hverjar ætti að tvídekka. Sannkallaður liðssigur þar sem enginn var ómissandi.

Hvað gekk illa?

Það vantaði allan takt í sóknarleik Grindvíkinga í kvöld. Dani sem átti stjörnuleik á móti Fjölni var í strangri gæslu í allt kvöld og þá þarf Elma örugglega nokkrar æfingar í viðbót með liðinu áður en hún kemst í réttan takt. Sömuleiðis þá var varnarleikur Grindvíkinga ekki góður og Njarðvíkingar fengu ansi oft galopin skot, bæði undir körfunni og fyrir utan.

Hverjar stóðu upp úr?

Eins og svo oft áður þá var Aliyah Collier stigahæst Njarðvíkinga, með 23 stig og bætti við 16 fráköstum (þar af 7 sóknarfráköstum!) og 4 stoðsendingum. Lavinia Joao Gomes De Silva kom næst með 21 stig en þurfti að vísu að taka ansi mörg skot. Þá átti Bríet Sif Hinriksdóttir góða spretti í sínum fyrsta leik í græna búningnum og endaði með 14 stig.

Hjá gestunum var Danielle Rodriguez stigahæst með 23 stig, 5 fráköst og 7 stoðsendingar. Hún bætti reyndar við 6 töpuðum boltum en Njarðvíkingar létu hana hafa mikið fyrir hlutunum í kvöld.

Hvað gerist næst?

Bæði lið eru þá komin með 2 stig á töfluna. Njarðvík eiga næst leik á útvelli gegn Fjölni 5. október og Grindavík tekur á móti Breiðabliki sama kvöld.

Við fyrstu sýn bara mjög lélegt hjá mínu liði

Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur.Vísir/Hulda Margrét

Þorleifur Ólafsson þjálfari Grindavíkur var ekki beinlínis upplitsdjarftur eftir stórt tap gegn Njarðvík í kvöld, en blaðamanni tókst þó að toga uppúr honum nokkur orð um leikinn.

Þetta var erfitt í kvöld?

„Já þetta var mjög erfitt og við fyrstu sýn bara mjög lélegt hjá mínu liði.“

Þriðji leikhlutinn var sérstaklega lélegur, einfaldlega skelfilegur ef við tölum bara hreina íslensku?

„Já hann var skelfilegur en það er bara Njarðvík að þakka. Þær komu mjög grimmar til leiks sem er náttúrulega plan beggja liða. Þær gerðu það en við ekki og því fór sem fór.“

Elma Dautovic átti ágætis innkomu í kvöld en hún var bara rétt nýlent á landinu. Hún á væntanlega eftir að hjálpa liðinu eftir því sem líður á?

„Klárlega. Það kom kafli þar sem hún var að standa sig mjög illa en svo kafli þar sem hún var að standa sig mjög vel. Þetta er auðvitað bara fyrsti leikurinn hennar og ég er mjög ánægður með hana.“

Tímabilið er auðvitað bara rétt að byrja og það þýðir lítið að svekkja sig á úrslitum í september. Er Þorleifur mjög bugaður eftir þessi úrslit?

„Nei nei. Það er auðvitað leiðinlegt að tapa og ekkert meira um það að segja.“

Það byrjar bara allt í vörninni

Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari NjarðvíkurVísir/Vilhelm

Rúnar Ingi þjálfari Njarðvíkur var að vonum ánægður með að landa fyrsta sigri tímabilsins þó svo að hann hafi séð eitt og annað sem hann vill bæta í næstu leikjum. Njarðvíkurliðið yfirspilaði Grindavík á köflum og leiddu allan leikinn og munurinn var á tímabili orðinn 25 stig. Var þetta einhvern tímann í hættu?

„Við þurftum að hafa mikið fyrir þessu. En við sýndum kafla hérna í kvöld á gólfinu þar sem við vorum bara virkilega flottar og að hreyfa boltann vel. Sérstaklega í þriðja leikhluta, þar spiluðum við alveg frábæra vörn þar sem við vorum að ná að loka akkúrat svæðunum sem við vildum. En þetta er bara hörkugott Grindavíkurlið sem er erfitt að eiga við. Þær eru „physical“, eru með Danielle Rodriguez, sem er frábær leikmaður. Ég er bara rosalega ánægður með að ná í tvö stig í dag.“

Njarðvík gerði í raun útum leikinn í þriðja leikhluta, og Rúnar tók undir að þar hefðu þær lagt grunninn að sigrinum.

„Já við komum sterkar útúr hálfleiknum. Það byrjar bara allt í vörninni. Við erum bara með lið, alveg eins og á síðasta ári þó það sé nýir leikmenn, sem býr til fullt af körfum útaf varnarleik. Þegar þú nærð að búa til svona auðveldar körfur útaf varnarleik þá einhvern veginn eflist sjálfstraustið þannig að næstu sóknir á eftir þá líður manni aðeins betur og við náðum að nýta það mjög vel. Það kom smá kæruleysi samt í okkar leik sem við þurfum aðeins að laga. Leiðinlegt að enda leikinn ekki nógu vel þegar þú ert búinn að ná svona góðum köflum. Þú ferð samt einhvern veginn pirraður inn í klefa. En virkilega ánægður með fullt af hlutum í kvöld þó það sé mikið sem við getum ennþá bætt.“

Aliyah Collier lenti í töluverðum villuvandræðum í kvöld, en það kom ekki að sök?

„Nei við náðum að leysa það vel í dag. Við eigum aðeins eftir að t.d. koma Bríeti betur inn í að hlaupa fjarka stöðuna. Við erum með Kristu Gló sem er ungur leikmaður sem mun láta ljós sitt skína í vetur. Lovísa kemur inn af bekknum, Þura líka. Við erum með fullt af stelpum sem geta látið til sín taka og ég er bara ánægður með þeirra framlag heilt yfir.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira