Upphaflega voru nemendur í 8. og 9 bekk Hagaskóla fluttir í húsnæði í Ármúla eftir að mygla fannst í álmu skólans síðasta vetur. Kennsla var hafin í Ármúla þegar Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu greip inn í og sagði húsnæðið ekki uppfylla brunavarnarkröfur.
Vífill Harðarson, formaður Foreldrafélagsins í Hagaskóla, hefur með félaginu fundað með skólayfirvöldum, Reykjavíkurborg og slökkviliðinu síðustu tvo daga til að fara yfir þá möguleika sem eru í stöðunni.
„Þessi niðurstaða með að fara með hluta nemendanna upp í Korpuskóla held ég að megi segja að sé – og við höfum metið það þannig í stjórn Foreldrafélagsins – sem það skásta í stöðunni.“
Stefnt er að því að hleypa nemendunum aftur heim í Vesturbæinn í áföngum eftir áramót.
„Þá verði komnar færanlegar kennslustofur á Hagaskólalóðina sem gefur tækifæri til þess að taka annan árganginn sem lengst af hefur verið í Ármúla, aftur í Vesturbæinn. Og eitthvað eftir það en ég held að menn séu að horfa á mars að þá verði komnar fleiri færanlegar kennslustofur til að taka þá seinni árganginn sem hefur verið í Ármúla aftur í Vesturbæinn.“
Þetta er nú talsvert umrót. Hvernig finnst ykkur í foreldrafélaginu Reykjavíkurborg hafa staðið að málinu?
Bara afleitlega, það verður nú bara að segjast. Allt frá því að þetta hófst þá hafa foreldrar verið með ýmsar athugasemdir við framkvæmdina á þessu; flutninguna upp í Ármúla og aðstöðuna upp í Ármúla sem nær einhvers konar hápunkti eða lágpunkti þegar upp komst að brunavarnir hafi ekki verið uppfylltar. Það er auðvitað spurning sem hlýtur að brenna á foreldrum ennþá, hvernig í ósköpunum gat það gerst að skólastarf væri hafið í byggingu sem uppfyllti ekki brunavarnakröfur?“