Skoðun

„Hvað er það versta sem gæti gerst?“

Helga Rakel Rafnsdóttir skrifar

Án þess að hafa séð sýninguna og án þess að þykjast hafa hugmynd um það hvernig er að vera manneskja með fötlun þá langar mig að leggja nokkur orð í belg varðandi „Stóra Þjóðleikhúsmálið“. Þessum pistli er ekki beint að neinum persónulega og kannski er hann einhvers konar viðbragð við viðbrögðum.

Ég hef aðeins setið í hjólastól í nokkra mánuði og veit ekki hvernig er að hafa til dæmis verið í hjólastól allt sitt líf. Ég hef ekki hugmynd um hvernig ég skilgreini mig, ég er bara Helga og ég get ekki lengur hreyft mig eins og áður. En ég hef örlitla innsýn í það hvernig er að geta ekki gert alls konar og ýmislegt sem flestum öðrum finnst sjálfsagt. Og ég hef líka örlitla innsýn inn í það hvernig er að vera svipt forréttindum og átta sig á því hvað man vissi lítið. Það er til dæmis hægara sagt en gert fyrir mig að pikka þessi orð á lyklaborðið, því máttur fingranna fer óðum þverrandi... en nóg um það!

Annað sem ég hef innsýn í er listsköpun og heimildamyndagerð. Spurningin um það hver hefur rétt til að segja hvaða sögu er til dæmis afar mikilvæg og aktúel í heimildamyndagerð og ég þreytist seint á því brýna einmitt það fyrir nemendum. Sem sagt, ef þið voruð ekki búin að átta ykkur á því, þá er ég að réttlæta það að taka til máls um efnið. Ég hef meira að segja farið í gegnum leiklistarnám ef út í það er farið. Ok. Réttlætingu lokið!

Það hefur verið stórkostlega áhugavert að fylgjast með umræðunni og viðbrögðum við "gagnrýni Nínu". í fyrsta lagi, þá getum við valið að vera þakklát fyrir að þessi gagnrýni var nákvæmlega eins og hún var, án hennar hefði boltinn ekki byrjað að rúlla. Í öðru lagi, þá var gott að Edda Björgvinsdóttir skyldi birta sín viðbrögð á síðunni "Menningarátökin" því annars er alls kostar óvíst að litli boltinn hefði orðið að flóðinu sem hann varð. Og svo komu fleiri viðbrögð, frá leikstjóranum Unni Ösp, frá Freyju Haraldsdóttur, frá Emblu Guðrúnar Ágústsdóttur, Kolbrúnu Dögg Kristjánsdóttur og Þorsteini Sturlu Gunnarssyni. Og svo var það spjallið góða í Lestinni á milli Ingu Bjarkar Margrétar Bjarnadóttur og Sólveigar Arnars. Ég met allar þessar manneskjur mikils og mæli með lestri og hlustun á þessu öllu saman.

Það hefur verð áhugavert að sjá hvernig margir úr stétt leikhúslistafólks hafa pakkað í vörn. Ég hef nefnilega séð svona viðbrögð áður, fyrir ekki svo mörgum árum þegar umræður um skort á kvenhlutverkum, sögum kvenna og kvikmyndum leikstýrðum af konum átti sér stað. Þá pökkuðu margir karlkyns kollegar mínir í vörn og sögðu með hæðnistón: Hvers vegna mega karlar ekki segja sögur af konum?! Og við göluðum út í tómið: Vegna þess að þeir eru ekki konur! Þeir vita ekki hvað það er að vera kona! Og þá svöruðu þeir: Ok en þið eigið samt ekki að fá neina forgjöf! Og við svöruðum: Eruð þið að tala um ómeðvituðu forgjöfina sem þið hafið alltaf verið með?! Og þannig hélt þetta orðaskak áfram. Og sem betur fer var það ekki til einskis, loks fóru björgin að mjakast, risaeðlur að vakna til meðvitundar og glerþök að springa. Og margt hefur breyst á fáum árum þó nóg sé eftir og stöðugt þurfi að viðhalda því sem þó hefur áunnist.

Ég man til dæmis eftir Eddunni árið 2011, þar sem konur klæddust jakkafötum og settu á sig skegg til að vekja athygli á því að það var ekki hægt að fylla leikkonuflokkana á Edduverðlaununum vegna þess að það voru engin kvenhlutverk. Þá varð Baltasar Kormákur svo pirraður yfir athyglinni sem þessar örfáu konur með skegg voru að fá, að hann hélt þrumuræðu í sjónvarpi allra landsmanna þar sem hann lofaði að gera leikna mynd í fullri lengd um heila áhöfn sem bara væru konur, í skipi sem strandaði og allar færust. Kannski ekki smekklegasta ræðan en Balti skipti seinna heldur betur um kúrs og hefur nú tekið þátt í þó nokkrum málþingum um stöðu kvenna í kvikmyndagerð auk þess sem hann hefur sýnt meðvitund um kynjahlutföll í verki, þegar hann hefur ráðið leikstjóra í verkefni. Baltasar má eiga það að hann var til í að sjá að sér, að breytast.

Ég verð að segja að mér hefur þótt grátlegt að sjá konur sem börðust hart fyrir rétti kvenna til að segja sínar eigin sögur, bregðast af hæðni við því sem nokkrar konur með fötlun hafa farið fram á undanfarið, nefnilega því að fólk með fötlun fái að segja frá og túlka raunveruleika fatlaðra.

Það getur verið skaðlegt að hópur sem er blindur á forréttindi sín segi sögur af öðrum hópum. Þetta staðfestir hið alræmda male-gaze sem er gegnsýrir menningu okkar svo hressilega að konur eru sjálfar haldnar því, alveg óvart.

Hvað er það versta sem gerist ef við einsetjum okkur það að reyna til hins ítrasta að láta alltaf fólk með fötlun leika persónur með fötlun? Hvað er það versta sem gæti gerst? Í alvöru? Og hvað gæti áunnist? Hver yrðu margfeldisáhrifin út í samfélagið? Er ekki þess virði að velta þessu fyrir sér?

Það er ekki þannig að það þurfi aðeins að byrja þessar breytingar á skólastigum, það er hægt að breyta á mörgum stöðum í einu. Það er svo miklu gjöfulla. Þetta svar heyrðist nefnilega oft frá karlkyns kollegum mínum í kvikmyndagerð: Það á að byrja á skólastiginu, ekki í Kvikmyndasjóði því þá takið þið pening af okkur!

Nú munu án efa einhverjir saka mig um pólariseringu sem virðist vera hið mesta skammaryrði þessi dægrin. En getur verið að þessi blessaða pólarisering hafi bara verið hérna allan tímann - og að mörg þeirra sem sökuð eru um pólariseringu séu einmitt að reyna að uppræta hana?

Ekki ætla ég að þykjast vita allt. En eitthvað veit ég þó. Og ég veit að ég var illa haldin af able-isma áður en ég veiktist af MND. Og líklega er ég það að einhverju leiti enn þá. Og ég veit líka að eftir að ég veiktist þá fór ég að sýna málfluttningi fatlaðra meiri áhuga. Man græðir svo asskoti mikið á því að hlusta. Um leið og ég ber mikla virðingu fyrir þeim sem að sýningunni standa, þá vel ég líka að hlusta þegar Embla, Freyja, Kolbrún og Inga Björk taka til máls. Þær eru auðvitað ekki sama manneskjan en málfluttningur þeirra og baráttuþrek flytur fjöll.

Höfundur er kvikmyndagerðarkona.




Skoðun

Sjá meira


×