Innlent

Undir áhrifum á 164 kílómetra hraða á Kringlumýrarbraut

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Innbrot í hraðbanka og umferðarslys komu einnig á borð lögreglu hálfa sólarhringinn.
Innbrot í hraðbanka og umferðarslys komu einnig á borð lögreglu hálfa sólarhringinn. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði ökumann á öðrum tímanum í nótt en sá hafði mælst á 164 kílómetra hraða á Kringlumýrarbraut í Kópavogi, þar sem hámarkshraði er 80 kílómetrar á klukkustund. Að því er kemur fram í dagbók lögreglu fór ökumaðurinn ekki strax að fyrirmælum lögreglu og var kominn í Garðabæ þegar hann stöðvaði loksins.

Hann er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna, ítrekaðan akstur án gildra ökuréttinda og skjalafals, en á bílnum voru röng skráningarnúmer sem talið er að hafi verið stolin auk þess sem bíllinn var ótryggður.

Þá var tilkynnt um tvö innbrot í miðbænum og í Hlíðunum en á fjórða tímanum í nótt var brotist inn á veitingastað í miðbænum þar sem sjóðsvélum var stolið og í Hlíðunum var brotist inn í hraðbanka skömmu eftir klukkan fimm þar sem þrír menn voru handteknir og vistaðir í fangageymslu fyrir rannsókn málsins.

Einn til viðbótar gisti fangageymslu lögreglu sökum ástands eftir að tilkynnt var um að hann væri í annarlegu ástandi í kjallara hótels í miðbænum skömmu eftir klukkan ellefu í gær.

Skömmu fyrir klukkan átta í gærkvöldi var tilkynnt um umferðarslys í Mosfellsbæ þar sem bíl var ekið á tíu ára stelpu á gangbraut. Móðir stelpunnar fór með hana á bráðadeild en slysið var ekki tilkynnt til lögreglu eða óskað eftir sjúkrabíl á vettvangi.

Vitni var að óhappinu og er málið í rannsókn en áverkar voru ekki skráðir að sögn lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×