Þetta kom fram á upplýsingafundi lögreglu þar sem meðal annars kom fram að mennirnir séu grunaðir um framleiðslu vopna með þrívíddarprenturum. Um er að ræða fjóra íslenska karlmenn á þrítugsaldri.
Lagt var hald á tugi af skotvopnum, hálfsjálfvirkum þar á meðal, ásamt þúsundum af skotfærum. Fjórir voru handteknir en þeir tveir sem lögregla taldi vopnaða og hættulega voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald, annar í tvær vikur og hinn í eina viku.
Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, sagði að samfélagið væri öruggara í dag eftir aðgerðir lögreglu í gær.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sagði að mennirnir væri grunaðir um brot gegn 100. grein a hegninarlaga sem fjallar um hryðjuverk.
Telja að ekki sé yfirvofandi hætta í samfélaginu
Sagði Grímur að rannsókn á málinu hafi staðið yfir í nokkrar vikur og beindist hún þá gegn framleiðslu vopna með þrívíddarprenturum.
„Við rannsóknina komu fram upplýsingar sem leiddu til gruns að í undirbúningi væri árásir gegn borgurum ríkisins og stofnunum þess,“ sagði Grímur á fundinum og bætti við að gott samstarf lögreglu hafi komið í veg fyrir að beiting vopna gegn borgurum landsins og mikilvægum stofnunum þess yrði að veruleika.
„Það er mat okkar að ekki sé yfirvofandi hætta í samfélaginu um beitingu vopna gegn fólki og stofnunum,“ sagði Grímur.
Karl Steinar var meðal annars spurður á fundinum að því hvort að ætla mætti að fyrirhuguð árás sem komið hafi verið í veg fyrir hafi átt að beinast gegn Alþingi eða lögreglu.
„Jú, það má alveg ætla það,“ svaraði Karl Steinar sem sagðist ekki vera tilbúinn til að svara því hvort að mennirnir fjórir hafi láti stjórnast af þjóðernissinnuðum hvötum í áætlunum sínum.
Grímur sagði að lögreglan sé ákaflega ánægð með að ekki hafi orðið meira úr þeim áætlunum sem blöstu við lögreglu að stæði til að ráðast í. Rannsóknin væri á ákaflega viðkvæmu stigi en beindist meðal annars að því að setja upp tímalínu, rannsaka rafræn gögn.
Þjóðaröryggisráð upplýst
Lögregla ítrekaði á fundinum að lögregla telji að ekki sé yfirvofandi hætta fyrir almenning í dag. Lögregla telji að með aðgerðunum í gær hafi tekist að ná utan um það sem verið var að rannsaka. Lögregla sé með þau tök á málinu að ekki sé yfirvofandi hætta í samfélaginu.
Stærstur hluti þeirra vopna sem lögregla var á höttunum eftir hafi verið haldlagður í aðgerðum gærdagsins í dag.
Þjóðaröryggisráð hefur verið upplýst um málið. Ekki stendur til að herða öryggisráðstafana við stofnanir ríkisins. Þær voru þó hertar á meðan aðgerðum stóð í gær.
Sveinn Ingiberg Magnússon, yfirlögregluþjónn hjá héraðssaksóknara, sagði að verið væri að kanna hvort að mennirnir tengist erlendum öfgasamtökum.
Fréttin hefur verið uppfærð.