Erlent

Gagn­rýndur fyrir að syngja Bohemian Rhapsody stuttu fyrir jarðar­förina

Bjarki Sigurðsson skrifar
Justin Trudeau ferðaðist til Bretlands til að vera viðstaddur jarðarför Elísabetar II Bretlandsdrottningar.
Justin Trudeau ferðaðist til Bretlands til að vera viðstaddur jarðarför Elísabetar II Bretlandsdrottningar. EPA/Adam Vaughan

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, hefur verið gagnrýndur síðustu daga fyrir að hafa sungið lag með hljómsveitinni Queen í hótelanddyri í London, tveimur dögum fyrir jarðarför Elísabetar II Bretlandsdrottningar.

Söngurinn náðist á myndband eftir að Trudeau hafði snætt kvöldmat ásamt fylgdarliði sínu í London á laugardagskvöld. Hann var í borginni til að vera viðstaddur jarðarför Elísabetar II Bretlandsdrottningar en jarðarförin fór fram á mánudaginn.

Með söngnum hafði fylgdarliðið ætlað að votta drottningunni virðingu sína og því fannst þeim við hæfi að velja lag með hljómsveitinni Queen. Trudeau var einmitt að syngja eitt þeirra allra vinsælasta lag, Bohemian Rhapsody, þegar myndbandið var tekið.

Pólitískir andstæðingar Trudeau og fleiri hafa gagnrýnt hann fyrir sönginn, þó ekki vegna slæmrar raddar, heldur hafa þeir varpað fram spurningunni hvort lagavalið hafi verið við hæfi.

„Í alvörunni, hann er forsætisráðherrann, á almannafæri, stutt í jarðarför drottningarinnar og það er svona sem hann hagar sér?“ skrifaði Andrew Coyne, blaðamaður, á Twitter-síðu sína. Þá hafa andstæðingar Trudeau ýtt undir kenningu um að hann hafi verið drukkinn umrætt kvöld.

Talsmaður forsætisráðherrans segir hann ekki hafa gert neitt af sér með því að syngja lagið, hann hafi einungis verið að votta drottningunni virðingu sína. Trudeau og fylgdarlið hans hafi sungið fjölda laga saman og verið alls í tvo klukkutíma við píanóið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×