Skoðun

Fóstur­for­eldrar eru ekki ein­nota

Guðlaugur Kristmundsson skrifar

Það hefur vonandi ekki farið fram hjá neinum að Barna- og fjölskyldustofa hefur undanfarnar vikur staðið í herferð til þess að minna á og hvetja til þess að þau sem hafa áhuga á eða eru vænlegir kandídatar í verkefni fósturforeldra láti verða af því að sækja um. Eða láti allavega vita af sér.

Úr herferð Barna- og fjölskyldustofu má lesa að vaxandi þörf sé fyrir fósturforeldra á Íslandi. Með öðrum orðum sé listinn yfir börn sem þurfa að komast til ákjósanlegra fósturfjölskyldna, til lengri að skemmri tíma, að lengjast. Sem gefur til kynna að mikil vöntun sé á fósturforeldrum.

Við hjá Félagi fósturforeldra fögnum herferð Barna- og fjölskyldustofu og eins því að fleiri bætist við í okkar fjölbreytta hóp, en um leið langar okkur að vekja athygli á því að ein aðferð til að vinna gegn þessum vanda er að styrkja okkar félagsskap og stöðu þeirra fósturforeldra sem fyrir eru.

Í því sambandi er ágætt að minna á að fósturrof, þ.e. þegar fósturbarn fer frá fósturfjölskyldu, getur verið afar sársaukafullt. Ástæðurnar fyrir því geta verið margskonar, t.d. þegar barn snýr aftur til kynforeldra sinna eða þegar fósturfjölskylda hefur ekki úrræði til að vinna með vanda barns. Við fósturrof fer starfsmaður barnaverndar beint í að huga að stöðu barnsins, eðlilega og finna ný úrræði. En eftir standa fósturforeldrarnir sem þurfa að takast á við alls konar erfiðar tilfinningar, því þótt fósturrofið hafi verið „eðlilegt“ og jafnvel „fyrirsjáanlegt“ getur því fylgt íþyngjandi skömm.

Fósturforeldrunum finnst þeir kannski sitja einir eftir, að þeir séu ekki lengur hluti af samfélagi fósturforeldra, að þeir njóti ekki lengur stuðnings eða eigi í samtali við barnaverndarkerfið um sína stöðu. Þeir upplifa skömm, sem þeir einangrast með og bjóðast því ekki til þess að leggja öðru barni lið þrátt fyrir að hafa fengið þjálfun og verið metnir hæfir til þess að sinna hlutverki fósturforeldra.

Á sama tíma er verið að auglýsa eftir næstu fósturforeldrum, líkt og fósturforeldrar séu hálf partinn einnota.

Við hjá Félagi fósturforeldra teljum að hægt sé að gera betur og viljum stuðla að því.

Höfundur er formaður Félags fósturforeldra.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×