Innlent

Tvær stúlkur undir lögaldri á bar með útrunnin leyfi

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Lögreglan í miðbæ Reykjavíkur.
Lögreglan í miðbæ Reykjavíkur. Vísir/Kolbeinn Tumi

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti ýmsum verkefnum nýafstaðna nótt.

Í tilkynningu kemur fram að lögreglan hafi haft eftirlit með vínveitingahúsi í miðbænum. Í ljós kom að inni á staðnum voru tvær stúlkur undir lögaldri auk þess sem staðurinn var með útrunnin leyfi. Umræddur veitingastaður var tæmdur.

Þá var tilkynnt um líkamsárás í Háaleitis- og Bústaðahverfi. Þar hafi þrír ráðist að einum, kýlt hann meðal annars í andlitið en voru farnir af vettvangi í bifreið þegar lögreglu bar að garði.

Tveir voru einnig handteknir í miðbænum vegna líkamsárása.

Nokkuð var um ölvunarakstur en einnig hlaupahjólaslys. Tvö voru flutt til aðhlynningar á Bráðadeild eftir slíkt slys, maður sem hafði hlotið opið beinbrot á fingri og kona sem hafði áverka á höfði.

Í Grafarvogi hafði lögregla afskipti af ökumanni sem var grunaður um ölvunarakstur og „umferðaróhöpp“ þar sem ekið hafði verið á umferðarskilti og síðar á 3 kyrrstæðar bifreiðar. Ökurmaður var vistaður í fangageymslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×