Erlent

Yfir­menn ung­versku Veður­stofunnar reknir vegna rangrar veður­spár

Atli Ísleifsson skrifar
Frá flugeldasýningu við Hetjutorg í Búdapest.
Frá flugeldasýningu við Hetjutorg í Búdapest. Getty

Tveir æðstu yfirmenn ungversku Veðurstofunnar hafa verið reknir eftir að veðurspá stofnunarinnar gekk ekki eftir.

BBC segir frá því að búið hafi verið að boða til „stærstu flugeldasýningar Evrópu“ síðastliðinn laugardag til að fagna degi heilags Stefáns. Sjö tímum fyrir sýninguna ákvað ríkisstjórn landsins hins vegar að fresta viðburðinum vegna veðurspár sem gerði ráð fyrir miklu óveðri um kvöldið.

Ekkert varð hins vegar úr þessu boðaða óveðri í höfuðborginni sem hefur nú leitt til að forstjóri og aðstoðarforstjóri ungversku Veðurstofunnar hafa verið látnir fara.

Til stóð að sprengja um 40 þúsund flugelda frá 240 stöðvum á fimm kílómetra kafla meðfram Dóná í höfuðborginni Búdapest og var áætlað að um tvær milljónir manna myndu fylgjast með sýninginni.

Ríkisstjórnin ákvað svo að fresta sýningunni um viku vegna óveðursspár Vepurstofunnar, en óveðrið skall þess í stað á austurhluta landsins í stað höfuðborgarinnar líkt og spár höfðu gert ráð fyrir.

Veðurstofan ungverska baðst afsökunar á málinu á sunnudag og sagði að ólíklegasta sviðsmyndin hafi ræst. Óvissa sé hins vegar hluti af gerð veðurspáa.

Ráðherrann Laszlo Palkovics, sem er með málefni Veðurstofunnar á sinni könnu, hafði hins vegar litla samúð með starfsmönnum Veðurstofunnar og ákvað í kjölfarið að segja forstjóranum og aðstoðarforstjóranum upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×