Fótbolti

Tuttugu þúsund áhorfendur báru grímur til að reyna að lokka Suarez heim

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Stuðningsmenn Nacional vilja ólmir fá Luis Suarez heim.
Stuðningsmenn Nacional vilja ólmir fá Luis Suarez heim. Vísir/Getty

Um tuttugu þúsund stuðningsmenn úrúgvæska liðsins Nacional báru grímur með andliti Luis Suarez í von um að auka líkurnar á því að leikmaðurinn snúi heim áður en félagsskiptaglugginn lokar.

Þessi 35 ára fyrru leikmaður Liverpool og Barcelona er án félags eftir að samningur hans við Atlético Madrid rann út í sumar.

Ýmsar heimildir benda til þess að Suarez hafi boðist að ganga til liðs við þýska liðið Borussia Dortmund. Fréttir frá heimalandi hans, Úrúgvæ, gefa þó í skyn að Suarez sé á leið til liðsins þar sem ferill hans hófst, Nacional.

Suarez lék aðeins eitt tímabil með Nacional á sínum tíma. Það var tímabilið 2005/2006, en þá var framherjinn 18 ára gamall. Hann spilaði 27 leiki og skoraði tíu mörk er liðið tryggði sér úrúgvæska deildarmeistaratitilinn.

Stuðningsmenn Nacional urður augljóslega spenntir þegar fréttir bárust af því að Suarez gæti verið á heimleið. Þeir gengu það langt að prenta grímur fyrir alla stuðningsmenn sem mættu á leik liðsins í gær, ásamt því að prenta um fimmtán þúsund spjöld sem á stóð #SuarezANacional (í. #SuarezTilNacional).

Á níundu mínútu leiksins settu svo stuðningsmennirnir upp grímurnar og héldu spjöldunum hátt á lofti, en það var til heiðurs níunni sem leikmaðurinn bar á treyju sinni á tíma sínum hjá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×