Innlent

Sérsveit kölluð til eftir að maður mundaði hníf

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Á myndum sem Vísi bárust má sjá vopnaða sérsveitarmenn.
Á myndum sem Vísi bárust má sjá vopnaða sérsveitarmenn. Aðsent

Sérsveitarmenn handtóku mann í Veghúsum í Grafarvogi í gærkvöldi sem dregið hafði fram hníf í samskiptum við fólk í íbúðinni. Maðurinn var einn í íbúðinni þegar lögregla handtók hann. Heimilisfólk hafði yfirgefið íbúðina fyrr um kvöldið.

Mikill viðbúnaður var við húsið í Veghúsum í gær, eins og sést af myndum frá vettvangi sem Vísir birti í gærkvöldi. Skúli Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að sjö lögreglumenn hafi verið á staðnum og útkallið gengið vel. 

Óskað hafi verið eftir aðstoð sérsveitar eins og gert sé í „vandasamari“ verkefnum. Maðurinn hafi ekki veitt mótspyrnu við handtöku og enginn særst. 

Vísir hafði eftir vitnum í gærkvöldi að aðgerðir lögreglu og sérsveitar hefðu staðið yfir þar til um klukkan hálf tólf. 

Uppfært klukkan 11:05: 

Frétt og fyrirsögn hefur verið uppfærð samkvæmt ítarlegri upplýsingum um málið. Lögregla sagði fyrst að maðurinn hefði ógnað heimilisfólki með hníf en það reyndist ekki rétt. Þá var heimilisfólk ekki í íbúðinni þegar maðurinn var handtekinn.

Lögregla var með mikinn viðbúnað fyrir utan Veghús.Aðsent



Fleiri fréttir

Sjá meira


×