Erlent

Ætla að setja hámark á magn nikótíns í vindlingum

Kjartan Kjartansson skrifar
Nikótín er efnið í sígarettum sem veitir reykingafólki tímabundna vellíðan. Það er jafnframt ákaflega ávanabindandi.
Nikótín er efnið í sígarettum sem veitir reykingafólki tímabundna vellíðan. Það er jafnframt ákaflega ávanabindandi. Vísir/Getty

Bandaríkjastjórn hyggst leggja til staðla um hámarksmagn nikótíns í vindlingum. Tillagan er liður í áætlun ríkisstjórnar Joes Biden forseta um að fækka dauðsföllum af völdum krabbameins um helming næsta aldarfjórðunginn.

Robert M. Califf, forstjóri Matvæla- og lyfjastofnunar Bandaríkjanna (FDA) sagði að það myndi bjarga mannslífum að gera vindlinga og aðrar tóbaksvörur sem kveikt er í minna eða ekkert ávanabindandi við kynningu á áætlunni í Hvíta húsinu í gær. Nikótín er afar ávanabindandi.

Verði magn nikótíns minnkað eru líkur til að færra ungt fólk verði háð vindlingum og reykingamenn eigi auðveldara með að hætta, að mati Califf.

Áætlað er að um 30,8 milljónir Bandaríkjamanna reyki vindlinga. Landlæknir þar telur að 87% reykingamanna séu byrjaðir að reykja fyrir átján ára aldur, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Um 480.000 manns deyja árlega af völdum reykinga vestanhafs og eru þær algengasta dánarorsök fólks þar.

Búist er við því að áform Bandaríkjastjórnar mæti harðri andstöðu tóbaksiðnaðarins. Það gæti einnig tekið Matvæla- og lyfjastofnunina að minnsta kosti ár að semja reglur um nikótínmagn vindlinga. Mótstaða iðnaðarins gæti dregið ferlið enn frekar á langinn með málarekstri fyrir dómstólum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×