Erlent

Tala látinna í Afgan­istan komin í 950 og talin lík­leg til að hækka

Árni Sæberg skrifar
Mikill fjöldi bygginga í Paktika-héraði jafnaðist við jörðu þegar jarðskjálftinn reið yfir.
Mikill fjöldi bygginga í Paktika-héraði jafnaðist við jörðu þegar jarðskjálftinn reið yfir. Bakhtar/AP

Öflugur jarðskjálfti reið yfir í Afganistan í morgun með þeim afleiðingum að minnst 950 eru látin og minnst 600 slösuð.

Skjálftinn var af stærðinni 6,1 og upptök hans voru við bæinn Khost við landamærin að Pakistan í suðausturhluta Afganistans.

„Tala látinna mun örugglega hækka þar sem sum þorpin sem urðu fyrir barðinu á jarðskjálftanum erum afskekkt og það mun taka nokkurn tíma að safna upplýsingum,“ segir Salahuddin Ayubi, starfsmaður innanríkisráðuneytis Afganistans, í samtali við Reuters.

Skjáltinn er sá mannskæðasti í landinu frá árinu 2002, en hann fannst einnig í Pakistan og á Indlandi.

Haibatullah Akhundzada, æðsti leiðtogi talibana í Afganistan hefur vottað aðstandendum látinna samúð sína í ávarpi. Talið er að björgunarstarf gæti reynst talibönum erfitt þar sem þeir hafa notið lítillar sem engar alþjóðlegrar aðstoðar frá því að þeir náðu völdum í Afganistan í ágúst síðastliðnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×