Ómar Ingi átti stórleik í gær er nýkrýndir Þýskalandsmeistarar Magdeburgar lögði Leipzig með fimm marka mun, 36-31. Gerði Ómar Ingi sér lítið fyrir og skoraði úr öllum 13 skotum sínum í leiknum.
Það þýðir að Ómar Ingi fór upp fyrir Bjarka Má - sem skoraði níu mörk í síðasta leik Lemgo - á listanum yfir markahæstu menn deildarinnar. Þeir sitja nú í öðru og þriðja sæti listans á en hinn fertugi Dani - sem á rætur að rekja til Íslands- Hans Lindberg, leikmaður Füchse Berlin trónir á toppnum.
Sá danski er markahæstur með 233 mörk, þar á eftir kemur Ómar Ingi með 231 og Bjarki Már aðeins einu minna eða 230 mörk.
Handboltaofvitinn Rasmus Boysen hefur tekið saman skemmtilega tölfræði í kringum baráttuna um markakóngstitilinn á Twitter-síðu sinni. Sem stendur er Ómar Ingi aðeins einn af fimm leikmönnum í sögu þýsku úrvalsdeildarinnar til að skora meira en 500 mörk samtals á tveimur tímabilum í röð.
Ómar Ingi varð markakóngur á síðustu leiktíð og takist honum það á nýjan leik er hann aðeins sjöundi leikmaðurinn til að ná því tvö ár í röð. Metið á hins vegar Kyung-shin Yoon en hann varð markakóngur samfleytt frá 1997 til 2002.
Omar Ingi Magnusson has with 1 match left of the season the chance to become back-to-back topscorer of the Bundesliga as the first player since Kyung-shin Yoon with 6 seasons in a row from 1996/97 to 2001/02 and the only 7th player ever.
— Rasmus Boysen (@RasmusBoysen92) June 9, 2022
Á sunnudaginn ræðst þetta allt er lokaumferð þýsku úrvalsdeildarinnar fer fram. Ómar Ingi og Gísli Þorgeir Kristjánsson mæta Ými Erni Gíslasyni og félögum í Rhein-Neckar Löwen. Bjarki Már mætir Hamburg á meðan Teitur Örn Einarsson og félagar í Flensburg fá það verkefni að stöðva Lindberg og refina frá Berlín.