Innlent

Telja eigin viðbrögð hafa verið rétt

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Arnar

Lögregla telur sig hafa brugðist rétt við þegar hún var kölluð tvisvar að húsi í Barðavogi í Reykjavík, vegna mannsins sem skömmu síðar var handtekinn, grunaður um að myrða nágranna sinn. Rannsókn málsins miðar vel og búið er að ræða við vitni í málinu. 

Lögreglan hefur haft málið til rannsóknar allt frá því hún var kölluð að húsi í Barðavogi í Reykjavík á laugardagskvöld, þar sem karlmaður á þrítugsaldri var handtekinn, grunaður um að hafa banað nágranna sínum. Lögregla segir rannsókninni miða vel.

„Það er verið að vinna úr þeim gögnum sem við höfum verið að afla okkur, og afla frekari gagna. Þannig að henni miðar bara nokkuð vel,“ sagði Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá rannsóknardeild lögreglu, í samtali við fréttastofu. 

Búið sé að taka skýrslur af þeim vitnum sem lögregla hafði ætlað sér að ræða við.

„Svo er aldrei að vita hvort það bætist eitthvað við. Það er eitthvað sem kemur í ljós síðar.“

Þó rannsókninni miði vel þurfi áfram að vinna úr gögnum af vettvangi og samtölum við vitni.

Viðbrögð lögreglu hafi verið rétt

Áður en tilkynnt var um málið á laugardagskvöld hafði lögregla tvisvar á stuttum tíma verið kölluð að húsinu vegna hegðunar mannsins sem síðar var handtekinn.

„Það sem búið er að skoða, þá er ekki hægt að sjá að afgreiðsla á því máli hefði átt að vera öðruvísi heldur en var.“

Að svo stöddu, er þá ekki talið að lögregla hefði átt að gera eitthvað öðruvísi?

„Nei, síður en svo,“ segir Margeir.

Margeir segir að þeir þættir rannsóknarinnar sem eftir standa geti tekið nokkurn tíma.

„Nú erum við bara að draga saman upplýsingar og fá aðstoð annars staðar frá líka. Fá ýmsa aðila til að meta og skoða frekar. Það sem eftir er af þessu, svona vinna, það getur tekið nokkra mánuði.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×