Innlent

Ekið á hjól­reiða­mann, yfir hjólið og svo af vett­vangi

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Annasamt var hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt.
Annasamt var hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Vísir/Vilhelm

Umferðarslys varð í miðbæ Reykjavíkur í gærkvöld þegar ekið var á hjólreiðamann. Að sögn vitna hafði ökumaður bifreiðarinnar verið að þenja bifreiðina og flauta áður en hann ók á reiðhjólamanninn sem datt í götuna og bifreiðinni var ekið yfir hjólið. 

Frá þessu er greint í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Ekki er getið um áverka en málið er í rannsókn.

Þá var tilkynnt um húsbrot og eignaspjöll í miðbænum þar sem maður er sagður hafa ruðst inn í íbúðarhúsnæði og lagt þar allt í rúst. Samkvæmt lögreglu braut maðurinn tvær rúður og yfirgaf síðan íbúðina. Kona og börn voru í íbúðinni en þau náðu að forða sér í herbergi og læsa þar að sér.

Einnig var tilkynnt um líkamsárás á bar í Breiðholti. Árásarþoli var fluttur með sjúkrabíl til aðhlynningar og árásaraðili handtekinn og vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins.

Nokkuð var um ölvunarakstur í nótt og tilkynnt um umferðarslys í Breiðholti þar sem maður hafði dottið af rafmagnshlaupahjóli. Sá var mikið kvalinn og var fluttir með sjúkrabifreið á Bráðadeild til aðhlynningar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×