Innlent

Há­vaxnar undra­verur og bað­strönd í mið­bænum

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
FotoJet (52)

Fimmtíu tonnum af sandi hefur verið komið fyrir inni í Listasafni Reykjavíkur þar sem tugir sóla sig á manngerðri baðströnd. Hávaxnar undraverur skálmuðu um miðbæinn í dag í tilefni af opnun listahátíðar.

Það er ekki oft sem landsmenn geta sólað sig á sundfötunum einum saman hér á landi án þess að það hreyfi vind. Það geta þó leikarar í sýningunni Sun and Sea sem fram fer í listasafni Reykjavíkur um helgina.

Í síðustu viku greindum við frá því þegar erfiðlega gekk að flytja fimmtíu tonn af sandi inn í Hafnarhúsið. Sandurinn er kominn á sinn stað og allt tilbúið fyrir helgina. Fréttastofa leit við á lokaæfingu verksins sem er í senn myndlistarverk og samtímaópera.

„Þetta verk hefur farið sigurför um heiminn og við erum ofsalega heppin að hafa þetta hér á Íslandi. Hvert sem verkið fer þá stendur fólk í löngum röðum til að komast að þannig þetta eru algjör forréttindi að hafa þetta verk hérna,“ sagði Kara Hergils, kynningarstjóri Listahátíðar í Reykjavík.

Verkið vann til verðlaunar á Feneyjartvíæringnum árið 2019. Verkið verður sýnt á milli klukkan 12 og 16 á laugardag og sunnudag og aðgangur ókeypis.

„Þetta er eini staðurinn í heiminum þar sem er svartur sandur á ströndinni þannig að verkið hefur sérstöðu hér.“ 

Ertu spennt að taka til? 

„Minna, en við leggjumst á eitt og klárum það.“

Baðströndin er flóðlýst.einar árnason

Opnunarhátíð listahátíðar í Reykjavík fór fram í dag þegar hávaxnar undraverur og glaðværir trommuleikarar skálmuðu um miðbæinn. Hollenskur leikhópur stóð að götuleikhúsinu en hópurinn hefur vakið athygli víða fyrir metnaðarfullar götusýningar.

Götuleikhúsið fer aftur fram á morgun, klukkan tólf í Reykjanesbæ og klukkan 16 í Garðabæ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×