Skoðun

Leigu­bíla­vandinn verður að leysast

Hildur Sverrisdóttir skrifar

Í tæplega þrjátíu ár hafa stjórnvöld haft þak á leyfum til að veita leigubílaþjónustu. Þrátt fyrir fólksfjölgun, og gríðarlega fjölgun ferðamanna, hefur fjölgun leyfa alls ekki náð að mæta aukinni eftirspurn. ESA hefur að auki sett fram athugasemdir vegna fyrirkomulags leigubifreiðaaksturs hér á landi og Samkeppniseftirlitið mælst til þess að núgildandi lög verði endurskoðuð með það að leiðarljósi að bæta samkeppnisumhverfið á leigubifreiðamarkaði.

Ófremdarástand

Öll þau sem hafa reynt að taka leigubíla undanfarið vita að fyrirkomulagið nú stuðlar í besta falli að óvissu um hvort hægt sé að treysta á þjónustuna og í versta falli óöryggi og ótta þegar það ekki gengur. Það er ómögulegt og í raun hættulegt að fólk bíði jafnvel klukkustundum saman að nóttu til eftir leigubíl og leiti því í auknum mæli til ólöglegrar skutlstarfsemi ýmis konar með þeirri áhættu sem því fylgir og þá sérstaklega fyrir konur. Skilvirk og áreiðanleg leigubílaþjónusta er svo nauðsynleg fyrir daglegt líf og sérstaklega mikilvægur hlekkur í samfélagi sem vill bjóða upp á almenningssamgöngur sem valkost.

Auðvitað er ekki við okkar ágætu leigubílstjóra landsins að sakast að ástandið sé eins og það er í dag. Leigubílstjórastéttin er reyndar um margt stórmerkileg. Leigubílstjórar hafa komið við sögu í lífi okkar flestra, jafnvel í gleði eða sorg, og þá oft verið stuðningur eða stuðpepparar og svo gætt trúnaðar um það allt saman. En umgjörðin í kringum starfsumhverfi þeirra er orðin úrelt fyrir þá sjálfa og neytendur þeirra og því farin að vinna gegn sjálfri sér.

Fagnaðarefni að breytingar eru í sjónmáli

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, hefur brugðist við því ástandi sem nú er með að fjölga atvinnuleyfum fyrir leigubifreiðaakstur um 100 á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Skrefið er gott og nauðsynlegt og verður til bóta. En það er ekki nægjanlegt sem framtíðarlausn á leigubílamarkaði. Mikilvægara er því langtímaskrefið sem ráðherra hefur einnig þegar stigið með að leggja fram frumvarp sem er í vinnslu á þinginu og kveður á um mun meira frelsi um rekstrarfyrirkomulag á þessum markaði.

Frumvarp um samkeppnisvænna leigubílaumhverfi

Frumvarp innviðaráðherra afnemur gríðarlega miklar aðgangshindranir sem hafa ríkt í kringum þessa starfsemi sem kemur niður á eðlilegri samkeppni og þar með verðlagningu og þjónustustigi. Þar skiptir miklu máli að afnema eigi kvótaúthlutun leyfa á viðkomandi svæðum. Önnur atriði frumvarpsins er vert að nefna og ég tel brýnt að verði skoðuð betur við yfirstandandi meðferð málsins á þinginu svo þau verði ekki í raun óþarfa aðgangshindrun inn á leigubílamarkaðinn.

Löggiltir gjaldmælar tímaskekkja

Það er til að mynda úrelt og óþarflega íþyngjandi að gera kröfu um löggiltan gjaldmæli í bifreiðunum. Snjalllausnir samtímans geta með nægilega gagnsæjum og öruggum hætti leyst úr gjaldtöku gagnvart farþegum svo vel sé til að standast kröfur neytendaverndar. Ráðherra hefur sagt að slík ný tækni sé hugsunin á bakvið undanþáguatriði ákvæðisins um að heimilt sé að aka án gjaldmælis ef samið er um fyrirframumsamið heildargjald eins og það er orðað í frumvarpinu. Verra er að einu dæmin sem eru nefnd í greinargerð frumvarpsins um slíka fyrirframumsamda heildargjaldsundanþágu eru annars vegar skoðunarferð með fararstjóra og hins vegar eðalvagnaþjónusta. Það verður því að breikka snjalltæknivænu undanþáguheimildina svo hún nái einnig yfir hefðbundna leigubílaþjónustu. Best væri að setja einfaldlega eina skýra reglu um að í öllum ferðum verði gjaldtaka og fyrirkomulag hennar að vera gegnsæ og skýrt tekin fram með augljósum hætti samkvæmt kröfum neytendaverndar.

Krafa um starfsstöð útiloki ekki einyrkja

Passa verður einnig að kröfur um eiginlega starfsstöð eins og frumvarpið kveður á um hafi ekki í för með sér aðgangshindrun einyrkja og annarra aðila sem hafa hug á að starfa á þessum vettvangi. Það er hægt að taka undir með ráðherra um að það sé óskandi að þingið leiti lausna til sátta hvað þetta atriði varðar. Þar má til dæmis nefna að í Danmörku var lausnin sú sem hægt væri að líta til að hver einstaka bifreið gæti skoðast sem einstaka starfsstöð og með því þessi aðgangshindrun fyrir einyrkja afnumin.

Frumvarp innviðaráðherra er mikið fagnaðarefni og frelsisskref sem vafalaust skilar sér í aukinni samkeppni og bættum og neytendavænni leigubílasamgöngum. Ég vona að í yfirstandandi vinnu á þinginu verði þessir ákveðnu þættir skýrðir svo tilgangi frumvarpsins verði örugglega náð um meira svigrúm til góðs í þessari ágætu atvinnugrein.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×