Innlent

Minnir á að fasteignagjöld íbúðarhúsnæða eru lægst í Reykjavík

Bjarki Sigurðsson og Heimir Már Pétursson skrifa
Dagur B. Eggertsson, starfandi borgarstjóri, segir að lækkanir á fasteignagjöldum verði ekki ákveðnar fyrr en við gerð fjárhagsáætlunar.
Dagur B. Eggertsson, starfandi borgarstjóri, segir að lækkanir á fasteignagjöldum verði ekki ákveðnar fyrr en við gerð fjárhagsáætlunar. Vísir/Vilhelm

Dagur B. Eggertsson, starfandi borgarstjóri, segir að fasteignagjöld íbúðarhúsnæða í Reykjavík séu þau lægstu á Íslandi. Álagning skatta verður ekki ákveðin fyrr en í haust við gerð fjárhagsáætlunar og því ekki ákveðin við myndun meirihluta í borginni.

Í gær kom fasteignamat fyrir árið 2023 út, en heildarmat fasteigna á Íslandi hækkar um 19,9 prósent á milli ára. Mesta hækkunin er í Hveragerðisbæ og minnsta hækkunin í Dalvíkurbyggð. Á höfuðborgarsvæðinu hækkar matið um rúm tuttugu prósent.

Ekkert óeðlilegt að allir skoði þessi mál

Hækkunin er sú mesta frá hruni og í morgun var greint frá því að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu ætli mörg hver að lækka álagningarhlutfall fasteignaskatta. Dagur B. Eggertsson, starfandi borgarstjóri, segir að lækkunin verði ekki ákveðin í Reykjavík fyrr en við gerð fjárhagsáætlunar sem lögð er fram í nóvember.

„Mér finnst ekkert óeðlilegt að öll sveitarfélög skoði þessi mál, Reykjavík hefur verið með lægstu fasteignagjöldin á íbúðarhúsnæði árum saman. Það kæmi mér ekki á óvart ef einhver sveitarfélög myndu færa sig nær okkur í því,“ segir Dagur í samtali við fréttastofu.

Hann segir að tölurnar sem gefnar voru út í gær séu fyrst og fremst heildartalan en eftir eigi að greina gögnin almennilega.

Segir það hagstæðast fyrir fjölskyldur að búa í Reykjavík

Samfylkingin, Viðreisn, Píratar og Framsóknarflokkurinn eru nú í meirihlutaviðræðum í borginni en Dagur segir að þau muni gefa sér einhvern tíma í endanlegar ákvarðanir um lækkanir.

„Þarna koma líka til skoðunar gjaldskrár á fjölskyldur og aðrar leiðir til að koma til móts við fólk. Við sjáum þegar allt er tekið saman að það er hagstæðast fyrir fjölskyldur að búa í Reykjavík og ég á ekki von á öðru en að við höfum metnað til að svo verði áfram.“


Tengdar fréttir

Hækkunin er sú mesta frá hruni

Á einu ári hefur fasteignamat húsnæðis hækkað um nærri tuttugu prósent. Hækkunin er sú mesta frá hruni. Forseti ASÍ segir á ábyrgð sveitarfélaga að hækkun fasteignamats verði ekki til að rýra kjör almennings.

Fasteignamat tekur mikið stökk á milli ára

Þjóðskrá hefur gefið út fasteignamat fyrir árið 2023. Heildarmat fasteigna á Íslandi hækkar um 19,9 prósent á milli ára, sem er umtalsvert meiri hækkun á milli ára en undanfarin ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×