Erlent

Rannsakandi Trumps beið afhroð

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögmaðurinn Michael Sussmann var sýknaður í dag að formaður kviðdóms í málinu sagði að meðlimir kviðdómsins hefðu vel getað varið tíma sínum í eitthvað gáfulegra.
Lögmaðurinn Michael Sussmann var sýknaður í dag að formaður kviðdóms í málinu sagði að meðlimir kviðdómsins hefðu vel getað varið tíma sínum í eitthvað gáfulegra. AP/Manuel Balce Ceneta

Lögmaður sem tengist Demókrataflokknum var í dag sýknaður af ásökunum um að ljúga að rannsakendum Alríkislögreglu Bandaríkjanna, FBI. Michael Sussmann var ákærður vegna rannsóknar Johns Durham á uppruna Rússarannsóknarinnar svokölluðu sem Robert Mueller stóð að.

Durham, sem var skipaður af William Barr, dómsmálaráðherra Donalds Trump, hefur varið þremur árum í að rannsaka Rússarannsóknina með litlum sem engum árangri. Þetta er fyrsta mál hans þar sem réttarhöld fara fram.

Ásakanirnar gegn Sussmann sneru, samkvæmt frétt New York Times, að undarlegum tölvugögnum sem rannsakendur fundu eftir að tölvuárás rússneskra útsendara á tölvukerfi landsnefndar Demókrataflokksins var opinberuð.

Rannsakendurnir komu gögnunum til starfsmanna FBI og sögðu þau mögulega sýna fram á að leynileg samskipti milli Trump-liða og Rússa. Rannsókn FBI sýndi þó að svo var ekki.

Sussmann mun hafa komið gögnunum til FBI en saksóknarar Durham sökuðu hann um að hafa logið því að hann væri ekki að gera það á vegum skjólstæðings. Þeir sögðu hann hafa unnið bæði fyrir framboð Hillary Clintons og annan aðila sem kom gögnunum til hans.

Á sama tíma hafi hann verið að reyna að fá blaðamenn til að skrifa um gögnin.

Verjendur Sussmanns sögðu að rannsakendur FBI hefðu vitað að hann hefði starfað fyrir framboð Clinton og Demókrataflokkinn.

Sagði kviðdómendur hafa sóað tíma sínum

Durham vildi sýna fram á að Sussmann hefði tekið þátt í einhvers konar samsæri um að koma sök á Trump. Framboð Clinton átti meðal annars að hafa komið einnig að þessu samsæri.

Eftir tveggja vikna réttarhöld tók það kviðdómendur sex klukkustundir að komast að þeirri niðurstöðu að Sussmann væri saklaus. Þau voru öll sammála.

Eftir að niðurstaðan lá fyrir sagði formaður kviðdómsins við blaðamenn fyrir utan dómshúsið að fólkið sem skipaði kviðdóminn hefði vel getað varið tíma sínum í eitthvað gáfulegra en þessi réttarhöld.

Sérstakur rannsakandi var skipaður eftir að í ljós kom að Jeff Sessions, þáverandi dómsmálaráðherra, hafði sagt ósatt um samskipti sín við sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum.

Mueller staðfesti mat leyniþjónustu Bandaríkjanna að rússnesk stjórnvöld hafi reynt að hafa áhrif á kosningarnar og tryggja Trump sigur.

Ekkert samráð

Rannsóknin leiddi ekki ljós glæpsamlegt samráð við Rússa en Trump forseti var þó ekki sýknaður af því að hafa staðið í vegi fyrir því að réttlætið næði fram að ganga, þó hann hafi ítrekað haldið því fram.

34 einstaklingar voru ákærðir vegna rannsóknarinnar og fyrir ýmsa glæpi. Þar á meðal eru sex fyrrverandi bandamenn og ráðgjafar Trump eins og fyrrverandi kosningastjóri hans, aðstoðarkosningastjóri, þjóðaröryggisráðgjafi og persónulegur lögmaður hans.

Auk þess var hópur rússneskra starfsmanna „Tröllaverksmiðjunnar“ svokölluðu og aðrir ákærðir fyrir afskipti þeirra af kosningunum.

Sjá einnig: Upplýsingahernaður háður úr „Tröllaverksmiðju“ í Pétursborg

Trump-liðar hafa lengi kvartað yfir rannsókn Mueller og þegar Trump var forseti setti hann og hans fólk nokkrar rannsóknir á laggirnar sem beindust að rannsókn Mueller. Þar á meðal var rannsókn Durhams.

Samkvæmt frétt NPR hefur einn fyrrverandi lögmaður FBI játað við saksóknarar Durhams að hafa breytt opinberum gögnum og þar að auki eiga að fara fram önnur réttarhöld seinna á þessu ári gegn Igor Danchenko, rússneskum manni sem hefur verið sakaður um að ljúga að rannsakendum FBI.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×