Innlent

Gefa ekkert upp um hvort Ís­land sé huldu­ríkið sem hjálpaði Pus­sy Riot

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Maria Alyokhina komst frá Hvíta-Rússlandi til Litáen fyrir tilstilli ónefndrar Evrópuþjóðar sem aðstoðaði hana með útgáfu einhverskonar ferðaskjals. Katrín Jakobsdóttir hefur ekki viljað tjá sig um hvort Ísland hafi átt hlut að máli.
Maria Alyokhina komst frá Hvíta-Rússlandi til Litáen fyrir tilstilli ónefndrar Evrópuþjóðar sem aðstoðaði hana með útgáfu einhverskonar ferðaskjals. Katrín Jakobsdóttir hefur ekki viljað tjá sig um hvort Ísland hafi átt hlut að máli. Samsett

Hvorki forsætisráðherra né fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytisins hafa viljað tjá sig um hvort íslensk stjórnvöld hafi komið að því að liðka fyrir brottför Maríu Alyokhinu, liðsmanni rússnesku andófshljómsveitarinnar Pussy Riot, frá Hvíta-Rússlandi til Litáen.

Fyrr í dag var greint frá því að New York Times, sem fjallaði um flótta Alyokhinu frá Hvíta-Rússlandi, hefði fullyrt að íslenski listamaðurinn Ragnar Kjartansson hafi sannfært ónefnt Evrópuríki um að útvega henni vegabréf svo hún kæmist til Litáen. Alyokhina hafði áður gert tvær tilraunir til að komast yfir til Litáen, án árangurs.

Öllu betur hafi hins vegar gengið að komast á milli landa með skjalið sem Ragnar er sagður hafa útvegað, þar sem það hafi veitt henni sömu stöðu og borgurum í Evrópusambandsríkjum.

Tjá sig ekki um málefni einstaklinga

Í samtali við fréttastofu fyrr í dag sagði Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, að hann gæti ekki tjáð sig um mál einstaklinga. Því fengust ekki svör við því hvort Ísland er hið ónafngreinda Evrópuríki sem sagt er hafa beitt sér fyrir Alyokhinu.

Sveinn Guðmarsson upplýsingafulltrúi.Utanríkisráðuneytið/Golli

Í svari við skriflegri fyrirspurn fréttastofu til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra segir þá að ráðherrann tjái sig ekki um málefni einstaklinga í þessu samhengi. Þó samgleðjist hún bæði Möshu og félögum hennar í Pussy Riot „og að þau hafi tækifæri til þess að nýta sér listrænt og pólitískt tjáningarfrelsi sitt.“

Fóru til Þýskalands í morgun en snúa mögulega aftur

Pussy Riot hefur síðastliðna vikuna verið við æfingar hér á landi, en hélt í morgun til Þýskalands. Þar mun sveitin hefja tónleikaferðalag sitt um Evrópu.

Sveitin nýtti húsnæði á vegum Þjóðleikhússins til æfinga, en í samtali við fréttastofu fyrr í dag sagði Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri að vonir stæðu til þess að eftir að hafa sett upp sýningar á nokkrum stöðum í Evrópu muni sveitin snúa aftur til Íslands í haust og stíga á svið í Þjóðleikhúsinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×