Veltufé frá rekstri er einn mikilvægasti mælikvarðinn í rekstri sveitarfélaga. Hann segir til um það hversu miklir fjármunir eru að myndast í rekstrinum og þar af leiðandi hversu miklu er hægt að ráðstafa í afborganir skulda eða fjárfestingar.
Rekstrarniðurstaða Reykjavíkurborgar á síðasta ári var betri en áætlanir gerðu ráð fyrir en helstu ástæðurnar voru matsbreytingu fjárfestingaeigna hjá Félagsbústöðum og áhrif af gangvirðisbreytingum innbyggðra afleiða í raforkusölusamningum Orkuveitu Reykjavíkur.
Með því að skoða veltufé frá rekstri, sem tekur ekki tillit til breytinga á virði eigna af þessu tagi, sést hverju grunnreksturinn er að skila.
Veltufé frá rekstri A-hluta Reykjavíkurborgar, sem er að öllu leyti fjármagnaður með skatttekjum, nam um 370 milljónum á síðasta ár. Það er verri niðurstaða en í tilfelli Mosfellsbæjar sem er með tífalt minni tekjur og Akraneskaupstaðar sem er með sautjánfalt minni tekjur, en bæði sveitarfélögin skiluðu veltufé frá rekstri að fjárhæð 900 milljónir.
Ef tíu stærstu sveitarfélög landsins eru borin saman má finna verri niðurstöðu hjá tveimur þeirra, Hafnarfjarðarbæ og Árborg, sem voru bæði í mínus.
Þegar veltufé frá rekstri er sett í samhengi við rekstrartekjur fæst mælikvarði á getu sveitarfélaga til að viðhalda eignum og fjárfesta. Hlutfallið hefur dregist umtalsvert saman hjá Reykjavíkurborg á síðustu árum. Í fyrra var hlutfallið 0,3 prósent samanborið við 4 prósent árið 2020 og 10,1 prósent árið 2019.
Haraldur L. Haraldsson, hjá HLH Ráðgjöf, sem hefur áratuga reynslu af ráðgjöf á stjórnskipulagi, fjármálum og rekstri sveitarfélaga, sagði nýlega í viðtali við Innherja að það væri „mjög alvarlegt mál“ þegar veltufé frá rekstri er nálægt því að vera neikvætt.
Ein skýring á því hvers vegna þessi lykilmælikvarði í rekstri borgarinnar hefur versnað svo hratt eins og raun ber vitni kann að felast í launakostnaðinum sem jókst um 12,5 prósent á síðasta ári. Í samanburði á tíu stærstu sveitarfélögunum er Árborg eina sveitarfélagið sem var með meiri aukningu en Reykjavíkurborg milli ára en þar jukust launagjöld um heil 16 prósent.
Kostnaður Reykjavíkurborgar vegna launa var 4,8 milljörðum króna yfir fjárheimildum í fyrra en í skýrslu fjármála- og áhættustýringarsviðs, sem fylgdi með ársreikningi borgarinnar, voru ástæðurnar sagðar vera „Covid-19 tengdur kostnaður, innleiðingar á betri vinnutíma og aukin eftirspurn eftir velferðarþjónustu.“
Launahlutfall Reykjavíkurborgar er nú komið upp í 60 prósent eftir samfellda hækkun frá árinu 2016 þegar það nam 51 prósenti. Yfir sama tímabil hefur stöðugildum í borginni fjölgað um 26 prósent.
Innherji hafði samband við skrifstofu borgarstjóra til að falast eftir stuttu samtali eða skriflegum svörum um grunnrekstur borgarinnar en fékk engin viðbrögð.