Í yfirlýsingu peningastefnunefndar í morgun er tekið fram að allir fimm nefndarmenn hafi stutt þá ákvörðun að lækka vextina um 25 punkta – úr 7,5 í 7,25 prósent – en þetta er fyrsta vaxtalækkun Seðlabankans frá því í maímánuði á þessu ári. Lækkunin kemur á sama tíma og verðbólga mælist 4,3 prósent, eða um 0,2 prósentustigum hærra en þegar nefndin kom saman síðast í október, og hefur hún haldist á þeim slóðum í nærri eitt ár. Undirliggjandi verðbólga hefur sýnt áþekka þróun.
Talsverð óvissa var meðal markaðsaðila um ákvörðun peningastefnunefndar í þetta sinn en hagfræðingar og greinendur allra bankanna – Arion, Íslandsbanka, Landsbankans og Kviku – höfðu samt allir spáð því að vextir myndu haldast óbreyttir. ACRO verðbréf spáðu hins vegar 50 punkta lækkun og vísuðu meðal annars til skýrra vísbendinga um kólnun í atvinnulífinu auk þess sem aðhaldsstig peningastefnunnar á heimilin væri búið að aukast „verulega“ eftir svonefndan Vaxtadóm Hæstaréttar.
Fram kemur í yfirlýsingu peningastefnunefndar að hægt hafi á vexti innlendrar eftirspurnar í takt við þétt taumhald peningastefnunnar og vísbendingar um viðsnúning í efnahagsumsvifum verða æ greinilegri.
„Samkvæmt nýbirtri spá Seðlabankans virðist spennan í þjóðarbúinu horfin og útlit er fyrir að það hægi meira á hagvexti en áður var talið. Þar vegur þungt röð áfalla sem hafa skollið á útflutningsgreinum en ekki síður það umrót sem hefur skapast á innlendum lánamarkaði í kjölfar nýlegs dóms Hæstaréttar.“
Það umrót sem hefur orðið á innlendum lánamarkaði er líklegt til þess að þrengja að lánakjörum og fjármálalegum skilyrðum heimila þótt raunvextir Seðlabankans hafi lítið breyst.
Þá segir að ný þjóðhagsspá bankans geri ráð fyrir að verðbólga hjaðni hraðar en áður var talið. Launahækkanir séu samt enn töluverðar og verðbólguvæntingar mælast enn yfir markmiði. „Óvissa er því áfram mikil,“ undirstrikar nefndin.
Á þessu ári gerir Seðlabankinn aðeins ráð fyrir 0,9 prósenta hagvexti – í fyrri spá frá því í ágúst var talið að hann yrði 2,3 prósent – og þá hafa horfurnar fyrir árið 2026 sömuleiðis versnað, einkum vegna áfalla í útflutningsgreinum. Nú er spáð 1,6 prósent vexti á næsta ári sem er 0,5 prósentum minni vöxtur en áður var reiknað með.
Fram kemur í spá Seðlabankans, sem birtist samhliða útgáfu Peningamála, að spenna á vinnumarkaði sé „greinilega“ að minnka samhliða því að atvinnuleysi þokast upp. Nú er gert ráð fyrir að það verði að meðaltali um 4,5 prósent á næsta ári. Þá segir í Peningamálum að þótt verðbólga hafi nýlega aukist þá séu horfurnar núna betri, meðal annars vegna meiri slaka í þjóðarbúskapnum. Verðbólga minnkar því hraðar en áður var spáð og búist er við að hún verði komin í 3,5 prósent um mitt næsta ár og í markmið snemma árs 2027.
Peningastefnunefndin gerir einni sérstaklega að umtalsefni í yfirlýsingunni það „umrót“ sem hefur orðið í kjölfar Vaxtadóms Hæstaréttar á innlendum lánamarkaði. Hún segir að það sé „líklegt“ til þess að þrengja að lánakjörum og fjármálalegum skilyrðum heimilanna enda þótt raunvexti Seðlabankans – sem hafa verið í kringum 3,5 til 4 prósent um langt skeið- hafi lítið breyt. „Í því ljósi telur nefndin rétt að lækka vexti bankans til að vega á móti þeirri herðingu á taumhaldi sem umrótinu fylgir,“ segir í yfirlýsingunni.
Nefndin mildar tóninn varðandi skilyrði fyrir frekari lækkun
Nefndin tekur fram í lokin að „frekari ákvarðanir um lækkun vaxta“ séu hins vegar háðar því að skýrar vísbendingar komi fram um að verðbólgan sé að hjaðna í 2,5 prósenta markmið Seðlabankans.
Það er nokkuð mildari tónn en var í fyrri yfirlýsingu nefndarinnar frá því 8. október síðastliðinn – orðalagið „skýrar vísbendingar“ hafa bæst við – sem var meira afgerandi og sagði þá: „Ljóst er að frekari skref til lækkunar vaxta eru háð því að verðbólga færist nær 2,5 prósent markmiði bankans.“

