Verðlaunin eru veitt honum fyrir ævilangt framlag til uppbyggingar íslensks atvinnulífs og því að hafa verið leiðandi í að koma íslenskum sjávarútvegi í fremstu röð á alþjóðavettvangi.
Fyrri handhafar heiðursverðlaunanna eru þeir Jón Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Össurar, og Grímur Sæmundsen, stofnandi og forstjóri Bláa lónsins.
Hátíðarkvöld Þjóðmála fór fram á Hvalasafninu á Granda og mættu til leiks um 280 gestir sem fylgdust meðal annars með því þegar Þorsteini Má var afhent portrett-málverk sem málað var af listmálaranum Sigurði Sævari Magnúsarsyni.
Fleiri verðlaun voru veitt af sama tilefni. Þannig hlutu forsvarsmenn Vekru viðskiptaverðlaun ársins 2025 fyrir sölu á bílaumboðinu Öskju og tengdra félaga til breska bílafyrirtækisins Inchcape.
Bjartasta vonin var valin laxeldisfyrirtækið Laxey í Vestmannaeyjum en nú standa yfir þar í bæ umfangsmestu fjárfestingar sögunnar og stefnir í að innan fárra ára muni útflutningsverðmæti fyrirtækisins nema um 50 milljörðum króna á ári hverju.
Samfélagsverðlaun Þjóðmála féllu í skaut Íslandsbanka sem hefur staðið tryggilega við bakið á Reykjavíkurmaraþoni í áratugi og meðal annars haft forgöngu um áheitasöfnun sem í dag er orðin ein mikilvægasta tekjulind nokkurra af stærstu góðgerðar- og líknarfélaga landsins.
Kaupmaður ársins var valinn ferðaþjónustufyrirtækið Skógarböðin við Eyjafjörð. Hjónin Sigríður M. Hammer og Finnur Aðalbjörnsson hafa byggt upp fyrirtæki á grunni heitavatnsstraums úr Vaðlaheiðargöngum og stefnir í að fyrirtæki þeirra skapi hundruð starfa á Eyjafjarðarsvæðinu. Hefur uppbyggingin aukið fjölbreytni í atvinnulífi svæðisins og gert það að meira aðdráttarafli fyrir ferðamenn en áður.




