Innlent

Ölvaðir menn til vand­ræða

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast í gærkvöldi og í nótt.
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast í gærkvöldi og í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögregla hafði í ýmsu að snúast í gærkvöldi og í nótt og var nokkuð um ölvaða menn til vandræða, bæði á bílum og á tveimur jafnfljótum.

Þannig þurfti lögregla að vísa ölvuðum manni af hóteli í miðbænum og öðrum úr verslun í Hlíðunum.

Þá var tilkynnt um aðila í annarlegu ástandi í bílakjallara í miðbæ Reykjavíkur sem hafði ráðist á öryggisverði þar. Sá var handtekinn og látinn gista fangageymslu.

Þá barst lögreglunni tilkynning um gróðureld í Öskjuhlíð og var lið kallað út til að kanna málið. Kom síðan í ljós að um var að ræða eld í eldstæði á lokuðu svæði sem engin hætta var talin af.

Einn var síðan handtekinn grunaður um líkamsárás og eignaspjöll og fékk hann einnig að gista fangageymslu og sömu sögu var að segja af nokkrum mönnum sem voru í bíl sem lögregla stöðvaði eftir að honum hafði verið ekið yfir hringtorg í Árbæ og skemmt gróður.

Ökumaður og farþegar reyndu allir að flýja lögreglu á hlaupum en varð ekki kápan úr því klæðinu. Þeir voru allir vistaðir í fangageymslum en ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum og einnig var hann án ökuréttinda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×