Innlent

Á­kærður fyrir að hafa skorið í sundur þrí­höfða annars manns

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Maðurinn er ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás.
Maðurinn er ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás. Vísir/Vilhelm

Karlmaður á fertugsaldri hefur verið ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa skorið í sundur handleggsvöðva á karlmanni á fimmtugsaldri í Breiðholti haustið 2019. 

Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reyjavíkur síðdegis í dag. Að því er segir í ákærunni á maðurinn að hafa á þriðjudagskvöldi í ágúst 2019 ráðist á annan mann á bílastæði í Breiðholti og skorið hann með hnífi í efri hluta hægri handleggs. 

Maðurinn skar þannig í sundur þríhöfða hins mannsins hliðlægt og segir í ákæru að hann hafi legið djúpt undir vöðva. Skurðurinn var um 10 til 15 sentímetra langur. 

Maðurinn er ákærður fyrir brot á annarri málsgrein 218. greinar almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Héraðssaksóknari gerir þá kröfu að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar en einkaréttarkröfur í málinu koma ekki fram í ákæru. 

Árásarmaðurinn meinti var handtekinn sömu nótt og árásin var framin en ekki úrskurðaður í gæsluvarðhald. Gunnar Hilmarsson aðstoðarvarðstjóri hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sagði í samtali við fréttastofu daginn eftir árásina að maðurinn væri ekki „góðkunningi lögreglunnar,“ eins og oft er sagt um þá sem ítrekað komast í kast við lögin. 

Þá var ekki grunur um að meintur árásarmaður hafi verið undir áhrifum áfengis eða vímuefna. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×