Gríðarleg gagnrýni hefur komið fram vegna sölunnar á Íslandsbanka.
Meðal annars hefur verið gagnrýnt að söluaðilar keyptu í útboðinu, aðilar sem keyptu um fjórðung hlutafjárs séu þegar búnir að selja að hluta og einhverjir fjárfestar hafi fengið lán fyrir kaupunum.
Ríkisendurskoðun og Fjármálaeftirlitið kanna nú söluna.
Formenn stjórnarflokkanna hafa nú ákveðið að víkja Bankasýslunni frá vegna málsins og koma á nýju fyrirkomulagi á sölu á hlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Málið verði lagt fyrir á Alþingi eins fljótt og auðið er.
„Við höfum verið að ræða þetta forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar og teljum rétt að endurskoða þetta fyrirkomulag. Þetta ferli á að vera hafið yfir vafa og þegar koma svona gagnrýnisraddir er mikilvægt að hlusta á þær og vanda sig,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Telur rétt að bíða eftir að niðurstöðum úttekta
Katrín telur ekki að fjármálaráðherra eigi að víkja en Bankasýslan heyrir undir hann. Aðspurð hvort það væri skynsamlegt tímabundið þar til úttektum Ríkisendurskoðanda og Fjármálaeftirlitsins lýkur svarar Katrín:
„Nei við skulum bíða eftir niðurstöðum kannanna sem liggja fyrir.“
Aðspurð um hvernig henni hafi orðið við að sjá að faðir fjármálaráðherra keypti í útboðinu svarar Katrín:
„ Ég sá ekki þennan lista sem keypti í útboðinu, það sama á við um fjármálaráðherra. Ég fór hins vegar fram á að listinn yrði birtur. Bankasýslan var hins vegar á móti því sem er athyglisvert í ljósi þess að allt ferlið átti að vera gagnsætt,“ segir Katrín.
Viðskiptaráðherra lýsti því yfir fyrir páska að hún hefði í ráðherranefnd komið mótbárum um sölu bankans á framfæri. Katrín segir að málið hafi verið rætt í ráðherranefnd og ríkisstjórn og en engin hafi bókað mótbárur við sölu.
„Það er hin hefðbundna venja við ákvörðunartöku á vettvangi ríkisstjórnarinnar,“ segir Katrín.
Bankasýslan segir allt hafa verið gert rétt hjá sér
Stjórn og starfsfólk Bankasýslunnar sendu frá sér tilkynningu um miðjan dag þar sem kemur fram að útboðið hafi verið í fullu samræmi við yfirlýst áform engin formleg gagnrýni hafi komið frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar.
Bankasýsla ríkisins skoðar enn fremur nú lagalega stöðu sína gagnvart söluaðilum sem sáu um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Stjórn stofnunarinnar segir að umsamdar söluþóknanir verði ekki greiddar í tilvikum þar sem ágallar hafi verið við söluna.