Innlent

Hljóp frá lög­reglunni og út í sjó

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Að sögn lögreglunnar var maðurinn fljótur að átta sig.
Að sögn lögreglunnar var maðurinn fljótur að átta sig. Vísir/Vilhelm

Kalrmaður var handtekinn rétt eftir klukkan fjögur í nótt grunaður um líkamsárás. Þegar lögregla kom á staðinn reyndi maðurinn að flýja og hljóp rakleiðis út í sjó.

Hann virtist hafa verið fljótur að átta sig á að það væru mistök og kom kaldur og blautur í land, segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hann var handtekinn og vistaður í fangaklefa. 

Atvikið er skráð hjá lögreglustöð 4 en undir stöðina heyra Grafarvogur, Mosfellsbær og Árbær.

Einn var handtekinn skömmu eftir klukkan átta í gærkvöldi grunaður um sölu og dreifingu fíkniefna. Þá voru nokkrir ökumenn stöðvaðir, ýmist grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.

Lögregla gaf einum ökumanna merki um að stöðva en sá skipti við félaga sinn sem sat í farþegasætinu. Skiptingin fór ekki fram hjá lögreglu en báðir reyndust í annarlegu ástandi. Þeir voru handteknir og færðir á lögreglustöð í sýnatöku. Annar var með hníf á sér sem lögregla gerði upptækan.

Þá var einn handtekinn fyrir líkamsárás í heimahúsi. Sá var ölvaður og var vistaður í fangaklefa.

Í miðborginni barst lögreglu tilkynning um mann í annarlegu ástandi sem reyndi að komast inn í mannlausar bíla. Lögregla tók af honum skýrslu en hann gekk svo sína leið, eins og segir í dagbók lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×