Samningurinn gildir til ársins 2024 en Reykjavíkurborg, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, Samtök ferðaþjónustunnar, Ríkislögreglustjóri, Neyðarlínan og ný Samtök reykvískra skemmtistaða eru aðilar að samkomulaginu.
„Við erum í rauninni bara að draga línu í sandinn, borgaryfirvöld, lögreglan og staðirnir sjálfir, til þess að tryggja að það sé öryggi alls staðar, líka þegar maður fer út að skemmta sér,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkurborgar.
Þetta er í fjórða sinn sem samkomulag um verkefnið er undirritað en markmiðið er að standa að vitundarvakningu og tryggja öryggi gesta og starfsfólks á skemmtistöðum borgarinnar. „Þetta er nánara samstarf borgarinnar, lögreglu, skemmtistaðanna og dyravarðanna, þarna eru líka ákveðin ákvæði um að við viljum ekki að það séu einhver myrk horn á skemmtistöðum,“ segir Dagur.
„Þetta gengur líka út á það að fólk læri hvert af öðru og þetta sé bara alveg skýrt að við viljum að skemmtanalífinu fylgi líka ákveðin öryggismenningu,“ segir hann enn fremur. „Við erum svolítið eins og beljur á vori eftir Covid en við höfum líka lært ýmislegt, til dæmis um samvinnu.“
Allir að vinna að sama markmiði
Samhliða undirrituninni í dag voru ný Samtök reykvískra skemmtistaða stofnuð en 26 skemmtistaðir taka þátt í verkefninu.
Birgitta Líf Björnsdóttir frá Bankastræti Club, Geoffrey Þ. Huntingdon-Williams frá Prikinu og Húrra, og Ásgeir Guðmundsson frá Röntgen eru í forsvari fyrir samtökin en Birgitta Líf segir þau gegna mikilvægu hlutverki.
„Bara að vera með einhvern vettvang þar sem við getum talað saman, átt samtalið, og haft síðan beina leið í rauninni að lögreglunni og borginni og geta bara unnið þetta saman. Það er mjög mikilvægt,“ segir Birgitta Líf.
Þá er hún bjartsýn á að samstarfið gangi vel en meðal málefna sem hún hefur sjálf barist gegn eru byrlanir á skemmtistöðum. „Ég held að það sé eitthvað sem við erum öll sammála um að þurfi að taka á og í rauninni bara að upplýsa alla um hvað sé í gangi, hvað er hægt að gera til að sporna gegn þessu,“ segir Birgitta.
„Við viljum koma á ákveðnum verkferlum og samræma okkur þannig að allir séu að vinna að sama lokamarkmiði, sem er að fólk sé öruggt til að koma og skemmta sér hjá okkur,“ segir hún.
Aðspurð um hvort hún telji það sérstaklega mikilvægt að samtök á borð við þessi séu stofnuð, nú þegar margir eru byrjaðir að sleppa af sér beislinu eftir Covid, segir hún svo vera.
„Ég held að þetta sé svolítið mikið komið til út af Covid, af því að þegar allt lokaði þá varð til þetta spjall á milli okkar allra,“ segir Birgitta. „Þetta er náttúrulega alltaf mikilvægt en sérstaklega kannski núna.“