BBC segir frá því að spár geri ráð fyrir að Vucic hafi hlotið um sextíu prósent atkvæða í forsetakosningunum og muni því gegna embættinu í fimm ár til viðbótar en hann tók við árið 2017.
Þá virðist sem að Framfaraflokkurinn muni halda yfirburðastöðu sinni á þinginu, en útgönguspárnar gera ráð fyrir að flokkurinn hafi hlotið rúmlega fjörutíu prósent atkvæða. Reiknað er með að flokkurinn muni áfram starfa með Sósíalistaflokknum og þannig verði ríkisstjórnin með öruggan meirihluta á þingi.
Vucic sagðist „stoltur“ af þessum mikla stuðningi þjóðarinnar og lýsti kosningabaráttunni einnig „bestu“ og „fallegustu“ í sögu Serbíu.
Vucic sagðist ætla að halda áfram nútímavæðingu Serbíu þar sem stefnt skuli að því að laða að erlenda fjárfestingu og tryggja frið og stöðugleika. Þá gaf hann í skyn að Serbía muni reyna að viðhalda góðum tengslum við stjórnvöld í Rússlandi. Á sama tíma skuli stefnt að Evrópusambandsaðild.
Helsti andstæðingur Vucic í forsetakosningunum var fyrrverandi hershöfðingi, Zdravko Ponos, sem var frambjóðandi bandalags nokkurra stjórnarandstöðuflokka. Hann virðist þó einungis hafa fengið innan við tuttugu prósent atkvæða.