Viðskipti innlent

ÁTVR unir niður­stöðu héraðs­dóms sem vísaði máli gegn net­verslunum frá dómi

Eiður Þór Árnason skrifar
ÁTVR hefur mætt nýjum netverslunum með áfengi af hörku. 
ÁTVR hefur mætt nýjum netverslunum með áfengi af hörku.  Vísir/Kolbeinn Tumi

ÁTVR hefur ákveðið að áfrýja ekki niðurstöðu héraðsdóms Reykjavíkur um frávísun mála sem höfðuð voru í þeim tilgangi að stöðva sölu áfengis í vefverslunum hér á landi. 

Stjórnendur ríkisfyrirtækisins telja að slík verslun samrýmist ekki lögum, gangi gegn einkaleyfi ÁTVR og sé í beinni andstöðu við gildandi áfengis- og lýðheilsustefnu.

Í tilkynningu á vef ÁTVR er bent á að bæði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sem fer með málefni laga um verslun með áfengi og tóbak, og Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hafi gefið út að þeir telji nauðsynlegt að endurskoða og skýra lög og regluverk um smásölu áfengis.

„ÁTVR hefur því ákveðið að una niðurstöðu héraðsdóms í trausti þess að löggjafinn og eftirlitsaðilar taki á málinu.“

Ekki sannað tjón

Héraðsdómur vísaði málum ÁTVR gegn Sante ehf., Santewines SAS og Bjórlandi frá fyrr í þessum mánuði á grundvelli þess að krafa ÁTVR væri háð það miklum annmörkum að ekki væri hægt að taka hana fyrir dóm.

ÁTVR krafðist þess að félögin myndu hætta smásölu áfengis á Íslandi á grundvelli þess að ÁTVR hefði einkarétt á sölu áfengis. Þá krafðist ÁTVR þess einnig að skaðabótaskylda yrði viðurkennd vegna meints tjóns sem ríkisfyrirtækið taldi sig hafa orðið fyrir vegna smásölu annara aðila á áfengi í vefverslun.

Einnig komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að ÁTVR hafi ekki upplýst nánar eða lagt fram gögn um það tjón sem fyrirtækið taldi sig hafa orðið fyrir vegna vefverslunar annarra aðila á áfengi. Ekki hafi verið sýnt fram á að kaup í vefverslun annarra aðila hafi komið í stað kaupa í ÁTVR, en ekki verið til viðbótar kaupum í ÁTVR.

Taldi héraðsdómur í báðum tilvikum að verulega skorti á að þeim skilyrðum væri fullnægt sem gerð eru til sönnunar á tilvist tjóns. Af þeim sökum telji dómurinn að ÁTVR hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um viðurkenningu á skaðabótaskyldu.

Alls var ÁTVR gert að greiða Bjórlandi 950 þúsund krónur í málskostnað og Sante og Santewines 1,65 milljónir í málskostnað.


Tengdar fréttir

ÁTVR kvartar formlega undan vefverslunum

ÁTVR hefur tilkynnt sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og á Vesturlandi um meint brot Bjórlands, Brugghússins Steðja og Sante ehf. Áfengisverslunin telur þessa aðila hafa gerst brotlega við áfengislög.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×