Erlent

Tíu prósent allrar raf­orku­fram­leiðslu heims nú frá vind- og sólar­orku

Gunnar Reynir Valþórsson og Atli Ísleifsson skrifa
Raforkuþörf heimsins sem bættist við á síðasta ári, í kjölfar þess að heimsfaraldur kórónuveirunnar skall á, er sögð vera jafn mikil og raforkuþörf alls Indlands.
Raforkuþörf heimsins sem bættist við á síðasta ári, í kjölfar þess að heimsfaraldur kórónuveirunnar skall á, er sögð vera jafn mikil og raforkuþörf alls Indlands. Getty

Þeim áfanga var náð á síðasta ári að tíu prósent allrar raforku sem framleitt var á jörðinni fékkst með vind- eða sólarorku í fyrsta sinn.

Þetta sýnir ný úttekt sem breska ríkisútvarpið fjallar um en þar segir ennfremur að um fimmtíu ríki í heiminum fái tíu prósent eða meira af sinni orku með þessum leiðum.

Það eru þó dökkar hliðar í skýrslunni einnig en þar er rakið hvernig gríðarleg eftirspurn eftir orku í kjölfar kórónuveirunnar hafi orsakað mikla framleiðsluaukningu á raforku sem búin er til með kolum. Vaxtahraðinn í kolaverum er slíkur að annað eins hefur ekki sést frá árinu 1985.

Raforkuþörfin sem bættist við á síðasta ári, í kjölfar þess að heimsfaraldur kórónuveirunnar skall á, er sögð vera jafn mikil og raforkuþörf alls Indlands.

Samtals skaffa vistvænar framleiðsluaðferðir rafmagns, á borð við sólar-, vind-, vatnsafls- og jarðhita 38 prósent alls rafmagns sem framleitt var í heiminum á síðasta ári og hefur hlutdeild sólar- og vindorku tvöfaldast frá árinu 2015, þegar Parísarsamkomulagið var undirritað.

Í skýrslunni segir að hlutfallsleg framleiðsluaukning vind- og sólarorku hafi verið hröðust í Hollandi, Ástralíu og Víetnam. Þannig jókst framleiðsla sólarorku í Víetnam um heil 300 prósent á einu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×