Ýmis málefni voru á dagskrá ráðherranna á fundinum að því er kemur fram í frétt New York Times, þar á meðal stríðið í Úkraínu en Arabaríkin hafa hingað til verið treg til að fordæma árásir Rússa og beita þá refsiaðgerðum. Afleiðingar stríðsins, til að mynda á matvælaöryggi, voru einnig til umræðu.
Þá ræddu ráðherrarnir kjarnorkumál í Íran, þar sem Bandaríkin vinna nú að nýju samkomulagi en Arabaríkin hafa lýst yfir áhyggjum vegna þessa. Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, dró Bandaríkin úr samkomulaginu við Íran árið 2015 og óttast Ísraelar til að mynda að nýtt samkomulag verði veikara en hið fyrra.
Áður en utanríkisráðherrarnir komu saman suðurhluta Ísraels í gær var greint frá hryðjuverkaárás í borginni Hadera í norðurhluta Ísraels en tveir lögreglumenn létust við árásina og sex særðust. Íslamska ríkið hefur lýst því yfir að árásin hafi verið á þeirra vegum. Yair Lapid, forsætisráðherra Ísraels, segir alla utanríkisráðherranna fordæma árásina.
Þetta er í fyrsta sinn sem leiðtogar þessara Arabaríkja koma saman í Ísrael en ríkin ákváðu að koma samskiptum við Ísrael aftur í eðlilegt horf árið 2020 og er þetta fyrsti fundur þeirra frá þeim tíma. Egyptaland skrifaði undir friðarsamkomulag við Ísrael árið 1979, fyrst Arabaríkjanna.
Blinken er einnig á svæðinu í öðrum erindagjörðum en hann fundaði með Mahmoud Abbas, forseta Palestínu, og Naftali Bennett, forsætisráðherra Ísrael, um átökin þeirra á milli. Blinken lýsti yfir stuðningi við baráttu Palestínumanna um stofnun sjálfstæðs ríkis. Abbas hvatti þó Bandaríkin til að beita sér frekar fyrir málefnum Palestínumanna.