Fótbolti

Veiran stöðvar óheppinn Van Gaal

Sindri Sverrisson skrifar
Louis van Gaal á æfingu hollenska landsliðsins í gær.
Louis van Gaal á æfingu hollenska landsliðsins í gær. Getty

Áhrifa kórónuveirufaraldursins gætir enn í fótboltaheiminum líkt og annars staðar og í dag greindi hollenska knattspyrnusambandið frá því að landsliðsþjálfarinn Louis van Gaal væri kominn í einangrun eftir að hafa greinst með veiruna.

Van Gaal fékk landsliðshóp sinn til sín í gær til undirbúnings fyrir vináttulandsleiki gegn Danmörku á laugardaginn og gegn Þýskalandi næsta þriðjudag, og fara báðir leikirnir fram á Johan Cruyff vellinum í Amsterdam.

Eftir að Van Gaal greindist með veiruna í morgun er hins vegar óvíst hvort hann verði til taks á leikvanginum þegar leikirnir verða spilaðir en aðstoðarmennirnir Danny Blind, Henk Fraser og Frans Hoek sjá um liðið í hans fjarveru.

Það á ekki af Van Gaal að ganga því síðast þegar Holland spilaði landsleik, óeiginlegan úrslitaleik við Noreg um sæti á HM, var hann í hjólastól eftir reiðhjólaslys og varð að fjarstýra sínu liði í gegnum síma.

Holland vann engu að síður leikinn við Noreg, 2-0, og tryggði sér sæti á HM í Katar sem fram fer í lok árs. Leikirnir við Danmörku og Holland eru liður í undirbúningnum fyrir það mót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×