Erlent

Fjórir látnir eftir að herþyrla hrapaði í NATO-æfingu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Samskonar vél og sú sem hrapaði.
Samskonar vél og sú sem hrapaði. Norski herinn.

Fjórir bandarískir hermenn létust þegar bandarísk herþyrla sem tók þátt í NATO-æfingunni Cold Response hrapaði í Norðurlandi í Noregi í gær.

Fjórir voru um borð í þyrlunni sem var að gerðinni V-22 Osprey. Björgunaraðilar komu að flaki vélarinnar í nótt, á Saltfjalli í Norðurlandi, og var þá staðfest að allir um borð létust.

Rannsókn á slysinu er hafin en í frétt VG segir að mjög slæmt veður hafi verið á vettvangi. Ekki sé hægt að athafna sig á slysstað og munu frekari aðgerðir hefjast þegar veður lægir.

Þyrlan tilheyrði landgönguliði bandaríska sjóhersins. Osprey-vélarnar eru nokkuð sérstakar, þær eru búnar tveimur hreyflum og geta þær tekið á loft eins og lent eins og þyrlur, en þegar í loftið er komið er hægt að snúa hreyflunum og flýgur vélin þá eins og flugvél.

Yfir þrjátíu þúsund hermenn frá 27 ríkjum taka þátt í NATO-æfingunni Cold Response sem nú stendur yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×