Það yrði fyrsta geimskot Artemis-áætlunarinnar en hún snýr að því að senda menn aftur til tunglsins á þessum áratug.
Artemis-áætlunin snýr að því að koma mönnum aftur til tunglsins á þessum áratug. Gríska gyðjan Artemis er systir guðsins Apollos. Eins og frægt er var það nafn verkefnisins sem sneri að tunglferðunum sem farnar voru á árum áður.
Hér má sjá hluta af útsendingu NASA í gærkvöldi þegar eldflaugin var flutt á skotpallinn.
Þróun og framleiðsla SLS, sem verður öflugasta eldflaug heimsins, hefur tekið mun lengri tíma en upprunalega stóð til. Fyrst átti að skjóta eldflaug á loft árið 2016. Starfsmenn Geimvísindastofnunar Bandaríkjanna (NASA) og Boeing hafa þó frestað því ítrekað í gegnum árin.
Sjá einnig: Fresta fyrsta geimskoti Artemis-áætlunarinnar enn og aftur
Orion-geimfarið var að mestu þróað af Lockheed Martin. Saman eru eldflaugin og geimfarið rétt tæplega hundrað metrar á hæð. NASA segir að eldflaugin verði sú eina sem muni geta sent geimfar, geimfara og birgðir til tunglsins í einu geimskoti.
Þær prófanir sem gera á áður en hægt verður að skjóta eldflauginni á loft og geimfarinu hring í kringum tunglið ganga út á líkja eftir geimskoti og sjá hvort allt sé klárt. Starfsmenn NASA munu dæla eldsneyti á tanka eldflaugarinnar, halda niðurtalningu og æfa geimskotsferlið. Í kjölfar þess er eldsneytinu dælt af tönkunum.
Nokkrum dögum eftir það verður eldflaugin flutt aftur inn í skýli og í kjölfarið ákvörðun tekin um hvenær reyna á að skjóta henni á loft.