Körfubolti

Nei eða já: Sammála um að LeBron James sé ekki lengur einn þriggja bestu

Sindri Sverrisson skrifar
Það er af sem áður var, þegar LeBron James var óumdeildur kóngur NBA-deildarinnar.
Það er af sem áður var, þegar LeBron James var óumdeildur kóngur NBA-deildarinnar. Getty/Robert Gauthier

NBA-sérfræðingarnir í Lögmálum leiksins tóku fyrir nokkur mál í liðnum „Nei eða já“ í gærkvöld og ræddu meðal annars um það hvort að LeBron James væri enn einn af þremur bestu leikmönnum NBA-deildarinnar í körfubolta.

Niðurstaðan var nokkuð skýr eftir að menn höfðu rætt málin aðeins. Hörður Unnsteinsson benti þó á að ef skoðuð væri tölfræðin hjá James með LA Lakers í vetur, í þeim leikjum sem liðið hefur verið án Anthony Davis, væri James með 33 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar að meðaltali, og auk þess góða skotnýtingu.

Klippa: Lögmál leiksins - Nei eða já

„Ég held að við værum galnir að segja að hann sé ekki topp 3 leikmaður í þessari deild,“ sagði Hörður en var fljótur að draga í land, eftir að nöfnum þeirra Kevins Durant, Giannis Antetokounpo, Joel Embiid og Nikola Jokic hafði verið velt upp:

„Nei, hann er ekki lengur topp 3 leikmaður í þessari deild. Jokic, Embiid, Giannis og Durant eru allir fyrir ofan hann,“ sagði Hörður.

Á meðal þriggja bestu ef horft væri á stakan leik

Sigurður Orri Kristjánsson sagði málið kannski ekki svo einfalt:

„Einn leikur, þá er hann topp 3. Yfir tímabil þá eru allir þessir fjórir betri og jafnvel Luka Doncic líka. Svarið er því nei, ekki lengur,“ sagði Sigurður en benti á að James gæti þó státað sig af því að hafa verið bestur í deildinni um langt árabil, eða frá 2008.

Umræðuna má sjá hér að ofan en fullyrðingarnar sem menn voru ýmist sammála eða ósammála að þessu sinni voru:

  • Bulls að missa af heimavallarrétti
  • LeBron er ennþá topp 3 leikmaður í deildinni
  • Bucks er líklegasta liðið úr austrinu
  • Karl-Anthony Towns mun ná í All-NBA liðið í ár
  • Lakers missa af úrslitakeppninni

Lögmál leiksins er vikulegur þáttur um NBA-deildina sem er sýndur á mánudögum á Stöð 2 Sport 2. NBA-deildin er hluti af Sport Erlent sem kostar kr. 3.990 á mánuði. Smelltu hér til að kaupa áskrift.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×