Íslenski boltinn

FH og HK skoruðu fjögur í öruggum sigrum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
FH vann góðan sigur í kvöld. Matthías Vilhjálmsson skoraði eitt marka liðsins.
FH vann góðan sigur í kvöld. Matthías Vilhjálmsson skoraði eitt marka liðsins. Vísir/Hulda Margrét

Tveimur af þremur leikjum kvöldsins í Lengjubikar karla í fótbolta er nú lokið. FH og HK skoruðu bæði fjögur mörk er liðin unnu örugga sigra.

HK mætti Þrótti Vogum í riðli 1 í A-deild keppninnar en bæði lið leika í Lengjudeildinni næsta sumar. Leikið var í Kórnum og unnu heimamenn sannfærandi 4-0 sigur eftir að hafa verið 1-0 yfir í hálfleik, Örvar Eggertsson með markið.

Mörkin þrjú sem skoruðu voru í síðari hálfleik komu öll þegar tæpur stundarfjórðungur var til leiksloka. Valgeir Valgeirsson skoraði annað markið, Örvar þriðja og Ásgeir Marteinsson fjórða markið.

Var þetta fyrsti sigur HK í þremur leikjum en liðið er nú í 4. sæti riðilsins með þrjú stig. Þróttur Vogum situr á botni riðilsins án stiga eftir að hafa leikið fjóra leiki.

Í Skessunni í Hafnafirði var Grindavík í heimsókn en liðin leika í riðli 4 í A-deild. FH mun leika í Bestu-deildinni næsta sumar meðan gestirnir eru í Lengjudeildinni.

Það kom því ekki á óvart að FH skildi fara með sigur af hólmi, lokatölur 4-1 heimamönnum í vil. FH skoraði tvívegis á fyrstu tíu mínútum leiksins, Kristinn Freyr Sigurðsson og Baldur Logi Guðlaugsson með mörkin. Gestirnir minnkuðu muninn um miðbik fyrri hálfleiks þökk sé marki Kairo Asa Jacob Edwards-John.

Steven Lennon bætti við marki fyrir FH undir lok fyrri hálfleiks og staðan 3-1 í hálfleik. Matthías Vilhjálmsson skoraði fjórða mark FH í upphafi síðari hálfleiks og ljóst að sigurinn væri í höfn, lokatölur 4-1.

FH er með sjö stig í 2. sæti eftir þrjá leiki á meðan Grindavík er í 5. sæti án stiga eftir jafn marga leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×