Innlent

Segir söluna stærsta dæmið um fjár­mála­af­glöp á sveitar­stjórnar­stigi

Atli Ísleifsson skrifar
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að að Sjálfstæðisflokknum beri skylda til að gera söluna á hlut Reykjavíkurborgar og Akureyrar í Landsvirkjun almennilega upp og biðjast afsökunar.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að að Sjálfstæðisflokknum beri skylda til að gera söluna á hlut Reykjavíkurborgar og Akureyrar í Landsvirkjun almennilega upp og biðjast afsökunar. Vísir/Egill

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir söluna á eignarhlutum Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun til ríkisins árið 2006 vera mestu fjármálaafglöp sögunnar á sveitarstjórnarstigi.

Þetta segir Dagur í samtali við Fréttablaðið í morgun. Hann segir mikill hagnaður Landsvirkjunar sýna fram á að salan hafi verið „algert hneyksli“, söluverðið hafa verið allt of lágt og verði borgin nú af miklum fjárhæðum í formi arðgreiðslna. 

Reykjavíkurborg fékk á sínum tíma 27 milljarða króna fyrir 44,5 prósenta hlut sinn í Landsvirkjun og Akureyrarbær þrjá milljarða fyrir sinn 5,5 prósenta hlut.

Borgarstjóri að Sjálfstæðisflokknum beri skylda til að gera málið almennilega upp og biðjast afsökunar, en ráðist var í söluna í borgarstjóratíð Sjálfstæðismannanna Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar í Reykjavík og bæjarstjóratíð Kristjáns Þórs Júlíussonar á Akureyri. 

Salan var á sínum tíma rökstudd á þann veg að ekki væri rétt að Reykjavíkurborg ætti hlut í bæði Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur sem væru í samkeppni.

Reykjavíkurborg og Akureyrarbær fengu engar fjárhæðir greiddar út vegna sölunnar heldur fór salan fram í formi lífeyrirskuldbindinga.

Greint var frá því á dögunum að hagnaður Landsvirkjunar hafi aukist töluvert á milli ára og numið 29,5 milljörðum króna, sem er tæplega 64 prósent aukning frá árinu 2020. Stjórn fyrirtækisins hefur lagt til að greiddur verði fimmtán milljarða króna arður aftur í ríkissjóð.


Tengdar fréttir

Hagnaðurinn aldrei meiri og stjórnin vill greiða 15 milljarða í arð

Hagnaður Landsvirkjunar jókst töluvert á milli ára og nam 29,5 milljörðum króna, sem er tæplega 64 prósent aukning frá árinu 2020. Stjórn fyrirtækisins hyggst leggja til að greiddur verði 15 milljarða króna arður aftur í ríkissjóð. Þetta kemur fram í ársreikningi Landsvirkjunar fyrir árið 2021 sem kom út í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×