Innlent

Meta kolefnislosun frá byggingum í fyrsta sinn

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Mesta losunin kemur frá byggingarefnum, einkum steypu. 
Mesta losunin kemur frá byggingarefnum, einkum steypu.  Vísir/Vilhelm

Ný skýrsla sér um að meta kolefnislosun frá íslenskum byggingariðnaði en skýrslan er liður í aðgerðaráætlun stjórnvalda í lofslagsmálum. Talið er að árleg kolefnislosun íslenskra bygginga samsvari losun frá 145 þúsund bensínbílum. Vinna er þegar hafin við verkefnið og er aðgerðaráætlunar að vænta í vor.

„Almennt er miðað við að mannvirkjageirinn beri ábyrgð á um 30-40% af losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Upplýsingar um losun íslenskrar mannvirkjagerðar hafa hins vegar verið takmarkaðar hingað til,“ segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins um skýrsluna.

Í vegvísinum kemur meðal annars fram að árleg kolefnislosun íslenskra bygginga samsvari losun frá 145 þúsund bensínbílum, þar sem mesta losunin, eða 45 prósent kemur frá byggingarefnum, einkum steypu. Þá myndar losun vegna rafmagns og hitaveitu íslenskra bygginga um þriðjung kolefnissporsins.

„Loftslagsmálin tengjast öllum hliðum samfélagsins og upplýsingarnar sem fram koma í þessum fyrsta áfanga vegvísins eru mikilvægur liður í að ná utan um losun frá íslenskum byggingum og gerir okkur kleift að setja markmið um vistvænni byggingar,“ segir Guðlaugur Þór Þórsson, umhverfis-, orku og loftslagsráðherra.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og félags- og vinnumarkaðsráðuneytið styrktu gerð skýrslunnar ásamt Samtökum iðnaðarins en niðurstöðurnar gera byggingariðnaðinum og stjórnvöldum kleift að setja skýr markmið og skilgreina aðgerðir til að ná þeim markmiðum.

Sú vinna er þegar hafin á vegum samstarfsverkefnisins Byggjum grænni framtíð og er aðgerðaráætlunar að vænta í vor.


Tengdar fréttir

Lofts­lags­málin hafa for­gang

Ég bind miklar vonir við að Sjálfstæðisflokkurinn hafi tekið við umhverfis- og loftslagsráðuneytinu. Víst er að loftslags- og umhverfismál munu verða efst á baugi hjá okkur Íslendingum á næstu árum og áratugum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×