Skoðun

Frestað!

Hildur Björnsdóttir skrifar

Byggingarfulltrúi í Reykjavík tók til afgreiðslu á dögunum, 88 mál á fimm klukkustunda fundi. Það fór ekki betur en svo að 63 málanna var frestað. Torsótt er að kynna sér ástæður frestunar. Höfuðborgin miðlar nefnilega illa fundargerðum sem þó innihalda einhverjar mikilvægustu hagtölur landsins. Ekki má með góðu móti afla upplýsinga eða vakta afgreiðslur eins mikilvægasta embættis landsins - allra síst með hjálp hugbúnaðar - þrátt fyrir að borgin hafi þegar varið milljörðum í stafræna þróun.

En hvers vegna ætli tæplega 72% mála á fimm klukkustunda fundi hafi verið frestað og aðeins 25% samþykkt? Til samanburðar er samþykktarhlutfall byggingafulltrúa nágrannasveitarfélaga nær 90%. Munurinn er sláandi, jafnvel þó málafjöldinn sé minni. Ekki síst í ljósi þess að allir byggingarfulltrúar landsins starfa eftir sömu lögum og reglugerðum. Gæti verið að munurinn felist í verklagi og viðhorfi til uppbyggingaraðila?

Reykjavík ætti með réttu að vera draumasveitarfélag verktaka, hönnuða, uppbyggingaraðila og fasteignaeiganda. Ef svo ætti að vera þyrfti hins vegar gagnkvæmt traust og virðing að ríkja milli þessara aðila og höfuðborgarinnar. Upplýsingagjöf verður að vera skilvirk, stafræn og að mestu sjálfvirk. Dýrmætum tíma sérfræðinga á ekki að eyða í óþarfa fyrirspurnir sem leysa mætti með einföldum tæknilausnum.

Fyrst og síðast þarf að finna lausnir sem flýta afgreiðslu mála, liðka fyrir samskiptum, draga úr flækjustigi og skapa umhverfi þarf sem jákvæð þjónustulund er í fyrirrúmi. Þegar miklum meirihluta mála er frestað með tilheyrandi kostnaði, sem á endanum flyst út í verðlag, er úrbóta þörf. Velta þarf öllum steinum við, skoða hvernig tíma starfsfólks er best varið, fjölga afgreiðslufundum, útvista verkefnum þar sem það á við og þróa stafrænar lausnir í samstarfi við hugbúnaðarfyrirtæki á frjálsum markaði. Þegar kemur að skipulags- og byggingarmálum á borgin vera leiðandi í þjónustu- og ráðgjafarhlutverki. Afgreiðslufundir byggingarfulltrúa eiga að vera stökkpallur fyrir spennandi verkefni, ekki stórkostleg hraðahindrun eða fenblaut mýri geðþóttaákvarðana.

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. 




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×