Sport

Danir taka tvítuga grænlenska skyttu með sér á Ólympíuleikana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ukaleq Astri Slettemark segist keppa fyrir bæði Grænland og Danmörku á leikunum í Peking.
Ukaleq Astri Slettemark segist keppa fyrir bæði Grænland og Danmörku á leikunum í Peking. Instagram/@ukaleqastri

Danir fjölmenna á Vetrarólympíuleikana í Peking í næsta mánuði og nú er það staðfest að grænlensk skíðaskotfimikona verður í danska Ólympíuhópnum í ár.

Ukaleq Astri Slettemark mun keppa fyrir Dani á leikunum en Alþjóðaólympíunefndin viðurkennir ekki Grænland sem keppnisþjóð og teljast keppendur þaðan vera frá Danmörku. Grænland er sjálfstjórnarsvæði innan Danmerkur.

Umrædd Ukaleq Slettemark er stolt af því að keppa fyrir bæði Danmörku og Grænland á Ólympíuleikunum.

„Ég er rosalega stolt af því að keppa fyrir hönd konungsríkisins og fyrir danska fánann, fyrir bæði Grænland og Danmörku,“ sagði Ukaleq.

Ukaleq er fædd í september 2001 og er því tvítug. Hún vann gullverðlaun á HM unglinga árið 2019 í 10 kílómetra göngu en endaði í 65. sæti á HM fullorðinna í fyrra.

Foreldrar hennar voru bæði skíðaskotfimifólk. Faðir hennar Øystein keppti á Ólympíuleikunum 2010 og móðir hennar Uiloq keppti á HM 2012.

Slettemark verður ein af minnsta kosti 62 keppendum Dana á leikunum í Peking.

„Þetta er það stærsta sem þú getur gert sem íþróttamaður af því að Ólympíuleikarnir eru bara á fjögurra ára fresti. Ég fær því ekki mörg tækifæri á ferlinum. Ólympíuleikarnir eru toppurinn fyrir alla. Það hlakka allir til leikanna og allir eru að reyna að vera í besta formi lífsins,“ sagði Ukaleq.

Vetrarólympíuleikarnir hefjast 5. febrúar næstkomandi og standa til 20. febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×