Skoðun

Mögnuð leik­skóla­stétt sem verð­skuldar virðingu

Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar

Leikskólar Reykjavíkur geyma yngstu borgaranna, kynslóðina sem tekur við og glíma þarf við fjölmörg vandamál sem við eldri höfum skilið eftir. Á fyrstu árunum mótast framtíðin og í leiktækjunum hoppa og skoppa áhyggjulaust forsætisráðherrar, seðlabankastjórar, sjómenn og eflaust leynast nokkrir lögfræðingar í sandkassaleik. Þetta er mikilvægur og viðkvæmur hópur og því eru starfsmenn leikskóla í miklu ábyrgðarstarfi. En hvers vegna er þá starfið ekki metið að verðleikum?

Starfsfólk leikskóla á erfitt með að sinna starfi sínu eins það vildi, það er ekkert afleysingarfólk sem leysir af þegar upp koma veikindi og eykst álagið með því sem fleiri starfsmenn veikjast. Erfitt er að manna stöður á leikskólum og skyldi engan undra. Tími er kominn til að skilgreina hlutverk starfsfólks upp á nýtt og leggja áherslu á að samræmi sé á milli launakjara og ábyrgðar í starfi.

Það að starfa á leikskóla snýst ekki eingöngu um að gæta barna því hlutverkið er miklu frekar að mennta, kenna og þjálfa. Starfsmenn leikskóla þurfa að geta greint vanda barna og komið með tillögur að lausn. Að mínu mati eiga leikskólamálin að vera eitt af forgangsmálum í næstu kosningum því þar er aldeilis tækifæri til að gera betur, við starfsfólk, börnin og borgarbúa.

Lykillinn er mögulega sá að hlusta á skoðanir skólastjórnenda og starfsmanna leikskóla. Þau hafa tilfinningu fyrir málaflokknum og hafa áhyggjur af fjölmörgum þáttum. Þetta er mögnuð stétt og hún verðskuldar þá virðingu og kjör sem hún skilið.

Höfundur er formaður Afstöðu og sækist eftir sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. 




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×