Innlent

Neitaði að bera grímu á tón­leikum Gauta og var hand­tekinn með hörku

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Emmsjé Gauti og félagar héldu sex tónleika á tveimur kvöldum.
Emmsjé Gauti og félagar héldu sex tónleika á tveimur kvöldum. @Emmsjegauti

Karlmaður var handtekinn á tónleikunum Jülevenner í gær eftir að hafa neitað að bera grímu. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sagði í dagbókarfærslu í morgun að maðurinn hafi verið handtekinn vegna brota á sóttvarnalögum og fyrir ofbeldi gegn opinberum starfsmanni.

Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að maðurinn hafi verið tekinn höndum af öryggisvörum með töluverðu offorsi eftir að hafa verið með „hefðbundin drykkjulæti.“ Maðurinn hafi ekki verið að mótmæla grímuskyldu eða takmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins heldur hafi einfaldlega drukkið yfir sig.

Freyr Árnason, listrænn stjórnandi Julevenner, staðfestir að atvikið hafi átt sér stað og telur að maðurinn hafi verið talsvert ölvaður. Hann hafi meðal annars neitað að bera grímu en Freyr kveðst ekki hafa séð aðdragandann nægilega vel. Lögregla hafi verið við almennt eftirlit á tónleikunum og gripið snemma inn í. 

Freyr segir þó að almennt hafi gengið vel og Freyr segir að flestir tónleikagestir hafi verið til fyrirmyndar. Rugluð stemning hafi verið á tónleikunum.

„Við erum bara mjög þakklátir. Við erum þakklátir fyrir það hvernig kerfið var tilbúið að vinna með okkur. Það var ekki lokað á öllu og við lentum ekki á einhverjum lokuðum dyrum. Heilbrigðisráðuneytið og allir voru boðnir og búnir til að finna út úr þessu. Þetta var bara geggjað,“ segir Freyr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×