Erlent

Tveir flóð­hestar greindust smitaðir

Árni Sæberg skrifar
Óvíst er hvort þessi flóðhestur sé með Covid-19 en hann býr allavega í dýragarðinum í Antwerpen.
Óvíst er hvort þessi flóðhestur sé með Covid-19 en hann býr allavega í dýragarðinum í Antwerpen. Szilvia Schöffer/Getty images

Tveir flóðhestar í dýragarði í Antwerpen í Belgíu hafa greinst smitaðir af kórónuveirunni. Starfsfólk garðsins vinnur nú hörðum höndum að smitrakningu og telur að um sé að ræða fyrsta smitið meðal dýrategundarinnar.

Flóðhestarnir Imani, fjórtán ára, og Hermien, 41 árs, mega nú dúsa í einangrun þar sem þeir eru með Covid-19. Þeir mega þó vel við una þar sem þeir eru einkennalitlir og einungis með smá kvef.

„Eftir því sem ég best veit er þetta fyrsta smitið hjá þessarri dýrategund. Veiran hefur aðallega greinst meðal stórra apa og katta hingað til,“ hefur The Guardian eftir Francis Vercammen, dýralækni dýragarðsins.

Talið er að kórónuveiran sem nú herjar á heimsbyggðina hafi borist frá dýrum til manna í upphafi og nú virðist sem við mennirnir séum farnir að smita dýr í auknum mæli.

Gæludýr á borð við hunda, ketti og frettur hafa smitast af eigendum sínum. Þá hafa stór kattardýr, otrar, prímatar, hýenur og nú flóðhestar smitast af veirunni.

Þá gleymast seint fréttir af smitum meðal minkasamfélagsins í Danmörku, með tilheyrandi fjártjóni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×