Innlent

Fannst heil á húfi eftir heila nótt úti í kuldanum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Það var kalt á Akureyri í nótt.
Það var kalt á Akureyri í nótt. Vísir/Tryggi

Umfangsmikil leit að konu á áttræðisaldri sem farið hafði að heiman frá sér á Akureyri í nótt bar árangur. Konan, sem er Alzheimer-sjúklingur, hafði þá verið úti í kuldanum í um sjö tíma.

Laust eftir tvö í nótt fékk lögreglan á Akureyri tilkynningu um að kona á áttræðisaldri hefði farið að heiman frá sér á Akureyri, líklega um miðnætti, og ekki skilað sér heim aftur. Fram kom að konan væri alzheimer-sjúklingur og væri því ekki líkleg til að rata heim aftur.

Í tilkynningu frá lögreglunni segir að umfangsmikil leit hafi þegar farið af stað með aðstoð björgunarsveita í Eyjafirði og Þingeyjarsveit. Leitað var með skipulögðum hætti út frá heimili viðkomandi og var það gert með fjölda björgunarsveitarmanna, lögreglumanna, drónum og leitarhundi.

Gátu fylgt sporunum

Nokkurra gráðu frost var á Akureyri í nótt en fyrir utan það voru aðstæður til leitar ákjósanlegar. Gátu leitarmenn meðal annars fylgt líklegum sporum í snjónum frá heimili konunnar.

Þrátt fyrir að hafa týnt sporinu á nokkrum stöðum var það til þess að konan fannst heil á húfi laust fyrir sjö í morgun, þá enn á gangi og búin að ganga rúmlega 3 kílómetra frá heimili sínu.

Var hún flutt á Sjúkrahúsið á Akureyri til aðhlynningar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×